fbpx
Mánudagur, desember 16, 2024
target="_blank"
HeimFréttirMenning og mannlífKvenfélag Fríkirkjunnar í Hafnarfirði 100 ára

Kvenfélag Fríkirkjunnar í Hafnarfirði 100 ára

Kvenfélag Fríkirkjunnar í Hafnarfirði var stofnað á sumardaginn fyrsta sem þá var 23. apríl árið 1923.

Það var Ólafur Ólafsson fyrsti prestur kirkjunnar sem hvatti til stofnunar Kvenfélagsins en þess má geta að Ólafur hafði verið alþingismaður og var í hópi þeirra fyrstu sem börðust fyrir kosningarétti kvenna.

Í raun má segja að Ólafur hafi nánast verið feministi svo harðlega gagnrýndi hann misrétti kynjanna.  Í grein frá þessum tíma segir hann fyrir rúmum 100 árum:

„Þegar lög mannfélagsins fara að skipta með kynjunum, þá skammta þau karlkyninu réttindin, kvenkyninu skyldurnar, karlkyninu frelsið, kvenkyninu þrældóminn, karlkyninu menntunina og þekkinguna, kvenkyninu fáfræðina og vanþekkinguna. Og alltaf er sama viðkvæði, alltaf sama ástæðan: Af því að þú ert kvenmaður, en hann er karlmaður.

…það er líkast því sem sumum karlmönnum finnist kvenfólk aldrei nógu auðmjúkt, nógu niðurlútt, nógu undirgefið…“ sagði Ólafur í þessari mögnuðu grein.

Já þetta er bakgrunnurinn, kvenfélagið verður til sem vettvangur til þess að gera konur sterkari og sýnilegri í samfélaginu.

Og fyrsta verkefnið sem Kvenfélagið kostaði var ljósaleiðing í kirkjuna eins og það var orðað sem er táknrænt verkefni svo mörg ljós sem þetta félag hefur tendrað í samfélagi okkar hér í Hafnarfirði á 100 árum með sínum góðu verkum.

Sagan verður ekki rakin hér en það er alveg ljóst að auk þess að styrkja góð málefni og efla félagsleg samskipti kvenna þá fór kvenfélagið snemma að standa fyrir skemmtunum t.d. útiskemmtunum á Víðistaðatúni og til er falleg ljósmynd af slíkum viðburði frá 1934.

Þá tók kvenfélagið þátt í því að halda sumargleði á sumardaginn fyrsta árið 1934 ásamt bræðrafélaginu og þar kemur fram að gleðinni ljúki með dansi og innan sviga stendur: Góð músik, jazz.

Já það var jazz dansleikur í boði bræðrafélags og kvenfélagsins árið  1934, stuð á kirkjufólkinu.

Ég leyfi mér að fullyrða að gleðin hafi fylgt  Kvenfélaginu allt frá upphafi.

Enn í dag er Kvenfélag Fríkirkjunnar í Hafnarfirði félagsskapur gleðinnar og þar ber kannski hæst árlegan jólafund Kvenfélagsins þar sem á annað hundrað konur koma saman og skemmta sér innlega.

Kvenfélagið hefur verið ein af burðarásum í starfi Fríkirkjunnar allt frá upphafi og það er bjart framundan enda fjölgar í félaginu á milli ári og aldursbilið breitt.

Kvenfélagskonur héldu upp á afmælisdaginn með því að þiggja boð forseta Ísland til Bessastaða og áttu þar ánægjulega stund. Bræðrafélag kirkjunnar tók svo á móti konunum í Golfskála Keilis og báru bræðurnir á borð dýrindis veitingar.  Það var mikið hlegið, sögur sagðar og sungið fram eftir kvöldi.

Kvenfélagskonar á Bessastöðum á afmælisdeginum. – Ljósm.: Fríkirkjan

Fyrir hönd safnaðarins þakka ég Kvenfélaginu fyrir alla gleðina og gjafirnar til kirkjustarfsins í gegnum árin 100.

Einar Eyjólfsson, prestur í Fríkirkjunni í Hafnarfirði

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2