Í ljósi alvarlegs skorts á leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði vilja Vinstri græn í Hafnarfirði að Hafnarfjarðarbær stofni leigufélag sem ekki er rekið í hagnaðarskyni (non-profit). Leigufélagið væri húsnæðissjálfseignarstofnun sem sæi um byggingu íbúða sem standa almenningi til boða til leigu án tillits til efnahags eða annarra aðstæðna, gegn viðráðanlegu leigugjaldi sem miðast við afborganir, vexti af lánum, vaxtakostnað, almennan rekstrarkostnað og annars kostnaðar af íbúðinni.
Ástæða þess er það ófremdarástand sem nú er á húsnæðismarkaði. Ungt fólk á í mestu vandræðum með að flytja að heiman og eldra fólk greiðir megnið af ráðstöfunartekjum sínum í húsaleigu. Leigjendur á leigumarkaði eru að sligast undan háu leiguverði og litlu húsnæðisöryggi.
Nú þegar kjörtímabilinu er að ljúka finnst okkur of lítið hafa gerst af hálfu sveitarfélagsins til að bregðast við aðstæðum og mæta þörfum þessa sístækkandi hóps. Það er í raun löngu tímabært að bregðast við.
Hugmyndir okkar byggja á evrópskri og norrænni fyrirmynd sem eru leigufélög í eigu sveitarfélaga eða sjálfseignarstofnana sem sveitarfélög koma að. Samkvæmt lögum um húsnæðismál nr. 44/1998 er sveitarfélögum heimilt að stofna eða taka þátt í stofnun slíkra félaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og hafa það að langtímamarkmiði að byggja, kaupa, eiga og hafa umsjón með rekstri íbúða sem leigðar eru út.
Við Vinstri græn viljum að í Hafnarfirði sé gott að búa og að nægt framboð sé af húsnæði fyrir, alla unga sem aldna, á viðráðanlegu leiguverði.
Gerum betur í Hafnarfirði
Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir
oddviti VG í Hafnarfirði.