Rekstur Hafnarfjarðarkaupstaðar hefur farið batnandi allt frá árinu 2013 eftir erfið ár frá hruni. Ytri aðstæður hafa verið hagfelldar síðustu ár og sveitarfélög hafa notið góðs af því. Nú virðast hins vegar blikur á lofti og mögulega sér fyrir endann á þeirri uppsveiflu sem við höfum verið í sl. ár. Það er því miður að Hafnarfjarðarkaupstaður hafi ekki nýtt hagsveiflu seinasta kjörtímabils til meiri uppbyggingar en raun ber vitni.
Stefnuyfirlýsing og forgangsröðun
Fjárhagsáætlun er pólitísk stefnuyfirlýsing. Í henni birtist stefna og forgangsröðun þeirra flokka sem sitja í meirihluta. Í fjárhagsáætlun ársins 2019 eru vissulega þættir sem ber að fagna. Um annað erum við ósammála og þá helst forgangsröðun.
Það er jákvætt að haldið verði áfram með átak í kaupum á félagslegum íbúðum sem hófst á seinasta kjörtímabili. Í ljósi þess hversu langt að baki mörgum nágrannasveitarfélögum Hafnarfjörður stendur hefðum við viljað sjá enn stærri skref tekin til að bregðast hraðar við þeirri brýnu þörf sem myndast hefur. Sveitarfélagið hefur lögbundnum skyldum að gegna við að leysa húsnæðisþörf þeirra sem þarfnast aðstoðar við. Mikilvægt er að þeim skyldum sé sinnt áður en farið er í fjárfrekar framkvæmdir á öðrum vettvangi.
Breytingartillögur Samfylkingarinnar
Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram tíu breytingatillögur við fjárhagsáætlun. Með þeim vildum við draga fram ákveðin atriði sem við teljum mikilvægt að sinna. Þar af voru m.a. tillögur um uppbyggingu á fjölbreyttu húsnæði, tillögur er vörðuðu stuðning við ungt fólk, barnafjölskyldur og aðbúnað starfsfólks Hafnarfjarðarbæjar. Þá lögðum við einnig fram tillögu um betri nýtingu skattstofna til að tryggja að lögbundnum hlutverkum sveitarfélags væri sinnt.
Engin tillagna okkar var samþykkt við afgreiðslu fjárhagsáætlunar að undanskilinni tillögu um aðgengi að sálfræðiþjónustu í Ungmennahúsi sem ber vissulega að fagna. Öðrum tillögum var ýmist hafnað eða þær sendar inn í nefndir og ráð til frekari umfjöllunar. En þar sem ekki er gert ráð fyrir fjármagni í þær í fjárhagsáætlun næsta árs er alls óljóst um afdrif þeirra. Við munum þó halda þeim málum á lofti og reyna að tryggja framgang þeirra.
Ólík forgangsröðun – vinstrið og hægrið
Núverandi meirihluti kýs að forgangsraða á annan hátt en við hefðum viljað sjá við þessar aðstæður. Í því kristallast meðal annars hugmyndafræðilegur áherslumunur meirihlutans sem nú er við völd og okkar Jafnaðarmanna. Það birtist m.a. í skattalækkunum og óbreyttu útsvari sem kemur þeim best sem hæstar tekjurnar hafa og með því að lækka álögur á fyrirtæki sem flest eru í ágætum færum til að greiða til samfélagsuppbyggingar í okkar ágæta bæjarfélagi.
Það er nefnilega mikilvægt að fjármunum bæjarins sé í meira mæli varið í innviðauppbyggingu, eflingu grunnþjónustu, grænni lausnir og umhverfisvernd. Og ekki síst að forgangsraðað sé í þágu þeirra sem minnst hafa á milli handanna. Í því felst réttlæti og jöfnuður.
Adda María Jóhannsdóttir og Friþjófur Helgi Karlsson, bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar