Við upphaf kjörtímabilsins var nóg af tilbúnum lóðum í Skarðshlíð sem biðu þess að uppbygging hæfist á þeim. En andvara- og framtaksleysi meirihlutans hefur verið átakanlegt. Hann er búinn að sitja á þessum tilbúnu lóðum of lengi, endalausar breytingar á skipulagi hafa m.a. tafið uppbyggingu í Skarðshlíðinni. Slíkt er óásættanlegt í þeirri stöðu sem nú er uppi eða er ekki markmiðið að draga úr hækkun fasteignaverðs með úthlutun á lóðum til almennings og byggingarverktaka? Það er kannski vilji meirihlutans að stuðla enn að hækkun fasteignaverðs með því að halda að sér höndum þannig að almenningur blæði en fasteignafélög fitni.
Þess má geta að Samtök iðnaðarins gáfu nýverið út tölur yfir íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu í september síðastliðnum og báru þær saman við tölur frá febrúar í fyrra. Þar kom í ljós að íbúðum í byggingu hafði fjölgað alls staðar, nema í Hafnarfirði. Þar hafði þeim fækkað um nærri þrjátíu prósent.
Reykjavík úthlutaði á síðasta ári lóðum undir fimmfalt fleiri íbúðir en næstu tvö ár á undan eða samanlagt alls 1711 lóðum undir íbúðir. Þá hefur Reykjanesbær úthlutað fleiri lóðum en Kópavogur og Hafnarfjörður samanlagt frá síðustu kosningum þar af 541 lóð í fyrra.
Til samanburðar var úthlutað í fyrra 66 lóðum undir íbúðir hér í Hafnarfirði.
Hafnarfjörður á ólíkt mörgum öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu bæði tilbúnar lóðir til úthlutunar sem og talsvert land undir nýjar íbúðir. Eins eru fjölmörg tækifæri til þéttingar og endurskipulagningar byggðar m.a. á Hraununum en gengið hefur allt of hægt að vinna að nýju skipulagi á því svæði.
Á meðan eru þéttingarverkefni á blússandi siglingu í nokkrum nágrannasveitarfélögum okkar m.a. í Kópavogi þar sem uppbygging er hröð í kringum Smáralindina bæði sunnan og austan megin við hana.
Annað sem veldur áhyggjum er að litlar sem engar áætlanir eru fyrir hendi hjá meirihlutanum í Hafnarfirði varðandi uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði á vegum húsnæðisfélaga. Til samanburðar er Reykjavík að huga mjög að þessu mikilvæga og brýna hagsmunamáli sérílagi fyrir fjölskyldur með lægri- og millitekjur og ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á húsnæðismarkaði. Þar má sjá af tölum að af þeim rétt rúmlega 1700 lóðaúthlutunum sem áttu sér stað í fyrra voru hátt í 1000 úthlutanir til félaga á borð við Félagsstofnun stúdenta, Byggingafélag námsmanna, Samtök aldraðra, Félagsbústaði, Sjómannadagsráð, Brynju hússjóð ÖBÍ og Bjarg húsnæðissjálfseignafélag ASÍ og BSRB.
Það er ljóst að betur má ef duga skal hvað þessi mál varðar hér í Hafnarfirði. Þetta mikla hagsmunamál er brýnt og ljóst að hægt hefði verið að gera mun betur á því kjörtímabili sem nú er að líða. Það skyldi þó ekki verða kosningamál í vor að standa betur að þessum málum en gert hefur verið á umliðnum fjórum árum hér í bæ. Því oft var þörf en nú er nauðsyn! Að skila nær auðu í þessum málum er ekki í boði!
Friðþjófur Helgi Karlsson
varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og fulltrúi í umhverfis- og framkvæmdaráði.