fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirPólitíkMeirihlutinn skilur láglaunahóp eftir 

Meirihlutinn skilur láglaunahóp eftir 

Árni Rúnar Þorvaldsson skrifar

Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks metur virði starfa almenns starfsfólks í leikskólum minna en nágrannasveitarfélögin gera – svo munar tugum þúsunda á mánuði. Fulltrúar þessara flokka í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafa ákveðið að þessi láglaunahópur sem sinnir afar mikilvægum störfum fyrir samfélagið og er að stórum hluta konur, skuli vera á lægri launum en kollegar þeirra í nágrannasveitarfélögum.

Höfnuðu tillögu Samfylkingarinnar

Á síðasta bæjarstjórnarfundi, við síðari umræðu um fjárhagsáætlun næsta árs, höfnuðu fulltrúar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks tillögu Samfylkingarinnar um að starfsfólkið fengi að nýju greitt fyrir að matast með nemendum. Þetta tíðkaðist hjá Hafnarfjarðarbæ en var afnumið sem ein af tímabundnum aðgerðum til að bregðast við afleiðingum efnahagshrunsins. Flestar þessara tímabundnu aðgerða hafa verið teknar til baka en ekki þessi.

Sjötíu prósent almenns starfsfólks leikskóla hafa íhugað að hætta

Mönnunarvandi leikskólans hefur verið í brennidepli umræðunnar að undanförnu. Samkvæmt könnun sem Verkalýðsfélagið Hlíf lét framkvæma meðal félagsfólks síns kemur fram að nær allt almennt starfsfólks á leikskólum bæjarins hefur fundið fyrir auknu álagi í starfi síðastliðna 6 mánuði. Rúmlega helmingur þátttakenda segir það óalgengt að deild sé fullmönnuð og fjórir af hverjum tíu segja að deild hafi verið lokað á síðustu 6 mánuðum vegna manneklu. Það kemur því ekki á óvart að 70% almenns starfsfólks leikskólanna hafi íhugað að hætta í starfi. Í málefnasáttmála meirihlutans kemur fram að leita eigi leiða til að minnka álag á starfsfólki skólanna. Erfitt er, miðað við þessar niðurstöður, að halda því fram að meirihlutanum hafi tekist að finna þær leiðir á kjörtímabilinu.

Ekki tekið á mönnunarvanda

Með þessari nálgun er meirihlutinn ekki bara að bregðast þessum láglaunahópi heldur er hann líka að bregðast nemendum leikskólanna og foreldrum þeirra – leikskólasamfélaginu. Hann horfist ekki í augu við raunveruleikann og tekur ekki á mönnunarvandanum. Þegar saman fer aukið álag og óhagstæður samanburður á kjörum við nágrannasveitarfélögin er augljós hætta á því að mönnunarvandinn haldi áfram að aukast með verulegum óþægindum fyrir leikskólasamfélagið í heild sinni.

Leiðrétting – verkefni nýs meirihluta

Almennt starfsfólk leikskólanna á betra skilið frá meirihluta bæjarstjórnar. Störf þeirra eiga ekki að vera minna metin en sambærileg störf í nágrannasveitarfélögunum. Því miður ákvað meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks að nýta ekki tækifærið á síðasta bæjarstjórnarfundi með því að samþykkja tillögu Samfylkingarinnar. Meirihlutinn kastaði því frá sér möguleikanum á að leiðrétta kjör þessa hóps og jafna þann mun sem er kjörum almenns starfsfólks í leikskólum í Hafnarfirði og nágrannasveitarfélögum. Það verður því verkefni nýs meirihluta á næsta kjörtímabili að leiðrétta þessa skekkju. Kosið verður í Hafnarfirði 14. maí nk. eins og öðrum sveitarfélögum landsins.

Árni Rúnar Þorvaldsson 
varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2