fbpx
Laugardagur, janúar 18, 2025
HeimFréttirSkólamálMikilvægi leikskólans í að byggja gott og öflugt samfélag

Mikilvægi leikskólans í að byggja gott og öflugt samfélag

Hugleiðingar í tilefni af degi leikskólans 6. febrúar 2017

„Það þarf heilt þorp til að ala upp barn“. Þetta segir í afrísku máltæki. Leikskólinn er oft fyrsta snerting fjöl­skyldunnar við uppeldisaðstoðina sem þorpið veitir um leið og hann er fyrsta skólastig barnsins. Foreldrar og leik­skólar hefja samvinnu að uppeldi barna frá því þau eru átján mánaða og þar til leikskólagöngu lýkur við fimm eða sex ára aldur og grunnskólinn tekur við.

Árið 2015 voru börn í leikskólum, eldri en tveggja ára á bilinu frá 94% upp í 97% eftir aldri.

Við veltum fyrir okkur hvað það er í samfélaginu sem veldur þessari miklu þátttöku barna í leikskólum landsins því leikskólinn er val foreldra en ekki skylda líkt og grunnskólinn. Atvinnu­þátttaka 16-74 ára á Íslandi 2016 var 84,5%, karlar 88,3%, konur 80,6%.

Atvinnuþátttaka foreldra skiptir því augljóslega máli en jafnframt teljum við að trú foreldra á góðri umönnun og kennslu innan leikskólanna hafi áhrif á mikla atvinnuþátttöku þeirra.

Hverjar eru væntingar foreldra til leikskólans?

Ef við greinum það út frá því hvað það er sem foreldrar spyrja um við upphaf leikskólagöngu, þá er það fyrst áhuginn á að kynna sér innra starf leikskólans, ríkjandi gildi og þá menntun sem þar fer fram.

Í dag er ekki óalgengt að foreldrar komi og skoði leikskóla í nærumhverfi sínu áður en þeir taka ákvörðun um hvaða leikskóla skuli sótt um. Kröfur foreldra um gæði leikskólastarfsins aukast með hverju ári sem er af hinu góða.

En hvað spyrja foreldrar um þegar þeir skoða skólana.

Ásta María Björnsdóttir

Spurningarnar eru eins ólíkar og foreldrarnir eru margir þær eru meðal annars um, dagskipulag skólans, áhersl­ur okkar í skólastarfinu, sam­skipti, útiveru, hreyfingu, næringu og hvíld.

Samskipti eru foreldrum hugleikin. Í okkar huga eru jákvæð samskipti og vellíðan undirstaðan í öllu starfi með börnum. Í samskiptum æfa börn síg í að skiptast á upplýsingum, þau fela einnig í sér að koma til skila hvað það er sem þau vilja og hvernig er gott að koma fram við aðra.

Útivera, það er eitthvað í menn­ingu landsins sem kallar á útiveru. Það er að minnsta kosti algengt að spurt sé um hvort föst útivera er í skólanum og hve miklum tíma börnin verji til náms og leikja utanhúss.
Hreyfing, foreldrar eru áhuga­samir um hreyfingu bæði úti og inni. Spurt er hvort hugað er að hreyfingu í leik barnanna og hvernig aðstaðan er innan skólans til hreyfileikja.

Særún Þorláksdóttir

Næring, umræðan í samfélaginu um holla fæðu og hreinan mat hefur haft áhrif á foreldra ungra barna einnig um­ræða um góða meltingu og áhrif henn­ar á heilsu til langs tíma.

Hvíld, foreldrar spyrja um hvíld og svefn. Flestir foreldrar eru meðvitaðir um að hvíld er mikilvæg fyrir vellíðan barna og að vel hvíld börn eiga auð­veldara með að meðtaka nýja hluti.

Meðvitund foreldra um grunnþarfir barna og krafa þeirra um gott atlæti og menntun, fyrir börn þeirra er rík.

Við hér í Hafnarfirði getum glaðst yfir því að bærinn hefur gengið til samn­inga við Embætti Landlæknis um að taka þátt í verkefninu Heilsueflandi samfélag. Þetta mun til framtíðar hafa áhrif á vellíðan bæjarbúa og þá ekki síst barna okkar.

Í þessari stuttu grein hefur einungis verið stiklað á stóru og lítið rætt um þær miklu breytingar sem orðið hafa á hlutverki leikskólans, væntingum til hans og viðhorfi til „kennslu“ leik­skól­ans á undangengnum árum. En leik­skólasamfélagið er í stöðugri þróun og endurskoðun í takt við tíðarandann. Það eina sem er óumbreytanlegt í um­gengni við börn er kærleikurinn.

Ásta María Björnsdóttir og Særún Þorláksdóttir eru leikskólastjórar hjá Hafnarfjarðarbæ.

Greinin birtist í bæjarblaðinu Fjarðarfréttum 2. febrúar 2017.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2