Fyrir rúmu ári síðan var skipaður starfshópur á vegum Hafnarfjarðarbæjar til að fara yfir skipulag göngustíga, hjólreiðastíga og reiðvega í upplandi Hafnarfjarðar allt frá Gráhelluhrauni að Helgafelli og frá Vallarhverfi að Hvaleyrarvatni. Starfshópurinn, sem undirritaður átti sæti í, skilaði fyrstu tillögum sínum þann 31. maí 2021 sem eru eftirfarandi:
-
- Áframhald á malbikuðum göngu- og hjólastíg frá afleggjara við Hvaleyrarvatn að Helgafelli, áningarstað.
- Göngu- og hjólastígur frá Vallahverfi að Hvaleyrarvatni. Lagður verði malarstígur fyrir gangandi og hjólandi frá Vallahverfi að Hvaleyrarvatni.
- Göngustígur umhverfis Hvaleyrarvatn verði byggður upp miðað við algilda hönnun.
- Aðgreining á umferð gangandi, hjólandi og hestafólks að og frá Gráhelluhrauni.
- Stórhöfðastígur, aðgreining á umferð að hluta. (Reiðleið og gönguleið).
- Endurstikun gönguleiða/útivistarstíga í upplandi Hafnarfjarðar.
- Merkingar á stígum í upplandi Hafnarfjarðar.
Í febrúar síðastliðnum skilaði starfshópurinn svo tillögu um nánari útfærslu á fyrirkomulagi stíga í Gráhelluhrauni, með vísan í lið 4, sem ég tel að myndi gjörbreyta aðgengi og umferð til hins betra á því svæði. Um þá tillögu og aðrar hefur verið mikil samstaða í starfshópnum. Sem áhugamaður um hreyfingu og útivist legg ég mikla áherslu á að Hafnarfjarðarbær komi þessum tillögum í framkvæmd hið fyrsta. Mikilvægt er að lágmarka hugsanlega árekstra milli hestamanna, hjólreiðafólks, hlaupara og gangandi vegfarenda sem því miður hafa verið nokkur dæmi um á síðustu árum. Með góðu skipulagi, merkingu á leiðum, kortlagningu og kynningu er hægt að koma því þannig fyrir að allir vegfarendur verði þokkalega sáttir. Í mínum huga ber bæjaryfirvöldum skylda til þess að auðvelda íbúum að njóta þeirrar frábæru náttúru sem upplandið býður upp á.
Sigurður P. Sigmundsson,
oddviti Bæjarlistans