fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirPólitíkNeyðarkall leikskólanna

Neyðarkall leikskólanna

Auður Brynjólfsdóttir skrifar

Verkalýðsfélagið Hlíf hefur farið mjög vel yfir stöðu starfsmannamála á leikskólum Hafnarfjarðar  Ég vildi gjarnan að niðurstöður athugunar Hlífar hefðu komið mér á óvart en þær gera það ekki – því miður. Næstum allir sem svöruðu könnun Hlífar sögðu að álag hefði aukist síðustu mánuði.

Léleg kjör og mikið álag eru meginorsök óánægju starfsmanna. Álagið hefur m.a. aukist vegna vinnutímastyttingar, aukins undirbúningstíma, veikinda og heimsfaraldurs Covid-19 síðustu tvö ár. Auk þess var ákveðið að hafa leikskóla bæjarins opna allt sumarið 2021. Þrátt fyrir fjölda undirskrifta og ályktana frá starfsmönnum og stjórnendum þar sem sumaropnuninni var mótmælt ákvað meirihluti bæjarstjórnar að láta það sem vind um eyru þjóta og keyrði sumaropnunina í gegn.

Á fundi fræðsluráðs þann 19. janúar síðastliðinn var umræða um sumaropnun leikskóla og greinilegt að meirihluti fræðsluráðs sér ekkert athugavert við ástandið og  þær afleiðingar sem sumaropnun hafði á faglegt starf leikskólanna. Hvar er skýrslan sem sýnir raunverulegan ávinning sumaropnunar og þann aukakostnað sem hún hafði í för með sér?

Alvarleg undirmönnun

Það þarf að fjölga stöðugildum á leikskólunum og bæta kjör þeirra sem þar starfa strax. Það skilar sér í ánægðara starfsfólki, sem er betur í stakk búið til að sinna vinnunni sinni sem er að fræða og örva börnin okkar. Fleiri starfsmenn gera okkur líka kleift að taka á móti fleiri börnum en mikil óvissa ríkir meðal foreldra ungra barna um hvenær og hvort börn þeirra fái leikskólapláss.

Leikskólakennarar hafa reynt að láta raddir sínar heyrast. Þær eru sífellt hunsaðar af meirihluta bæjarstjórnar. Það er með öllu ólíðandi að ekki sé hlustað á starfsfólkið og viðhaft samráð til þess að komast að skynsamlegri niðurstöðu. Það væru farsælli vinnubrögð en í staðinn kýs meirihlutinn að taka ekki á vanda leikskólanna og snýr sífellt við þeim bakinu.

Starfsfólk leikskóla hefur staðið vaktina á fordæmalausum tímum. Það hefur ekki möguleika á að vinna heima og hugsa um börn sem vita ekkert hvað er í gangi í samfélaginu. Börnin hafa upplifað miklar breytingar á sínu lífi með sóttvarnaraðgerðum. Mitt helsta markmið er að ræða við fagaðilana innan leikskólanna um hvernig er hægt að bæta kjör og starfsaðstæður starfsfólks, hlusta og taka mark á þeim og koma til móts við ómetanlegt framlag þeirra á fordæmalausum tímum.

Auður Brynjólfsdóttir,
starfsmaður leikskóla og ritari Bersans Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði

Höfundur býður sig fram í 4.-6. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar þann 12. febrúar

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2