Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar þann 18. janúar 2017 var samþykkt að frumkvæði fulltrúa Samfylkingarinnar og VG að fara í endurskoðun á gildandi umhverfis- og auðlindastefnu Hafnarfjarðar sem samþykkt var í bæjarstjórn 13. mars 2013. Sú stefna er að mörgu leyti vel gerð en alls ekki nógu aðgerðarbundin og hefur því ekki orðið virk stefnumótandi áætlun um jafn mikilvægan málaflokk og umhverfismálin eru í okkar bæjarfélagi.
Það var því ljóst við upphaf vinnu þess vinnuhóps sem skipaður var til að endurskoða gildandi stefnu að öflug aðgerðaráætlun þyrfti að fylgja þeim stefnumarkmiðum sem sett yrðu fram í hinni endurskoðuðu stefnu.
Á það lögðum við fulltrúar Samfylkingarinnar í umhverfis- og framkvæmdaráði mikla áherslu strax í upphafi vinnunnar.
Nú liggja fyrir drög að stefnunni sem er í yfirlestri áður en hún verður borin upp í bæjarstjórn til samþykktar. Það er skemmst frá því að segja að hópurinn stóð sig afar vel í vinnunni og fyrir liggur metnaðarfull stefna sem er mjög vel aðgerðarbundin og þannig líkleg til að komast til framkvæmda. En það er einn hængur á. Lýtur það að því fjármagni sem gert er ráð fyrir að setja í umhverfismál í þeirri fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 sem nú hefur farið í gegnum fyrri umræðu í bæjarstjórn. Það er ljóst að þar verður að bæta í umtalsverðu fjármagni svo það megi koma hinni metnaðarfullu stefnu í markvissa framkvæmd. Að óbreyttu er hætta á að sú umhverfis- og auðlindastefna sem nú liggur fyrir og bíður afgreiðslu í bæjarstjórn verði ekkert annað en fallegt plagg og lítið annað. Við slíkt verður ekki unað. Við fulltrúar Samfylkingarinnar í umhverfis- og framkvæmdaráði munum beita okkur fyrir því á næstu vikum að meira fé verði sett í þann mikilvæga málaflokk sem umhverfismálin eru svo hægt verði að fara í stórsókn í þeim hér í bæjarfélaginu. Helst með þeim hætti að Hafnarfjörður verði öðrum sveitarfélögum fyrirmynd þegar kemur að markvissum aðgerðum í umhverfismálum.
Friðþjófur Helgi Karlsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og á sæti í umhverfis- og framkvæmdaráði.