Mikil eftirspurn er eftir lóðum á höfuðborgarsvæðinu en til marks um það seldust allar lóðir í Hamranesinu, nýjasta hverfinu í Hafnarfirði, á mettíma. Nýjasta byggingarsvæðið sem bráðum kemur til úthlutunar í Hafnarfirði er Ásland 4, sem er í suðurhlíðum Ásfjallsins. Svæðið er framhald af hverfunum beggja megin við, það er Skarðshlíð og Áslandi 3.
Margir bíða spenntir eftir að svæðið fari í auglýsingu og úthlutun, enda um að ræða eitt eftirsóknarverðasta byggingarsvæði á höfuðborgarsvæðinu, á fallegum stað í grennd við óspillta náttúruna. Gert er ráð fyrir að í Áslandi 4 muni rísa í kringum 520 íbúðareiningar, þar af um 130 einbýlishús á einni, tveimur og þremur hæðum, 150 íbúðir í rað- og parhúsum og um 240 íbúðir í litlum fjölbýlishúsum með sérinngöngum. Stutt er í útivistarsvæðin við Hvaleyrarvatn, skógræktina og fjölbreytta náttúru víðsvegar í upplandi bæjarins. Að vestanverðu verður tenging yfir svokallaðan Gunnarsstíg sem liggur frá Ástjörn að Hvaleyrarvatni og áfram niður í Skarðshlið. Gert er ráð fyrir að fyrstu lóðirnar í Áslandi 4 verði auglýstar til úthlutunar í byrjun sumars.
Á haustmánuðum var hin nýja Ásbraut tekin í gagnið sem liggur meðfram hverfinu frá Kaldárselsvegi að Skarðshlíð/Hamranesi. Vegurinn gjörbreytir allri tengingu þessara nýju uppbyggingarhverfa við stofnbrautir og önnur hverfi bæjarins. Meðfram allri Ásvallabraut verður útivistarstígur sem eflaust mun gleðja marga.
Á síðustu 12 mánuðum hefur verið úthlutað fjölda lóða og samþykkt deiliskipulag fyrir um samtals 2.500 íbúðir og í vinnslu er skipulag fyrir fjölda íbúða til viðbótar. Það er því ljóst að framboð á lóðum í Hafnarfirði verður áfram mikið á komandi misserum og íbúum Hafnarfjarðar mun fjölga töluvert í náinni framtíð.
Lovísa Traustadóttir, fulltrúi í skipulags- og byggingarráði og sækist eftir 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins 3. – 5. mars n.k.