fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimUmræðanRáðuneytið segir nei

Ráðuneytið segir nei

Valdimar Víðisson skrifar

Í ágúst 2018 vakti fjölskylduráð athygli á þeirri alvarlegu stöðu sem uppi er í dagdvalarmálum fyrir fólk með heilabilunarsjúkdóma. Á þessum tíma voru um 30 manns á bið­lista eftir dagdvöl í Drafnar­húsi og biðtími eftir plássi var langur. Fjölmiðlar tóku upp bókun fjölskylduráðs og var fjallað um stöðuna í málefnum fólks með heilabilunarsjúk­dóma út um allt land. Stjórn­málamenn, aðstandendur og fagfólk tók þátt í umræðunni, hvort sem var í viðtalsþáttum í ljósvakamiðlum, viðtölum í blöðum eða með aðsendum greinum. Það var því von okkar að eitthvað færi að gerast í þessum málum.

Hér í Hafnarfirði ákvað fjölskylduráð að stofna starfshóp sem hafði það eina verkefni að finna húsnæði sem væri hentugt fyrir dagdvöl. Niðurstaða starfs­­hóps­ins var sú að Hafnarfjarðarbær tæki á leigu hluta af Drafnarhúsi. Í því húsi er nú þegar rekin dagdvöl og er rými fyrir 22 einstaklinga. Viðbótar­rýmið sem áætlað var að taka á leigu væri þá fyrir 10-12 einstaklinga til við­bótar og mundi það stytta biðlista eftir plássi í Drafnarhúsi.
Vert er að taka fram að sveitarfélögum ber ekki skylda til að útvega húsnæði fyrir slík úrræði en Hafnarfjarðarbær ákvað samt sem áður að fara í þá vinnu, þar sem vandinn er mikill.

Í lok árs 2018 var biðlisti eftir rými í Drafnarhúsinu ekki eins langur og hann var í sumar. Núna eru um 20 á biðlista í svokölluðum for­gangi 1. Það eru samt alltof margir.

Í nóvember var sent bréf á heilbrigðisráðuneytið og óskað eftir fjármagni til rekst­urs þessara dagdvalar­rýma. Í desember kom svar frá ráðu­neytinu og það var einfalt. Erindinu var hafnað þar sem ekki var gert ráð fyrir þessu í fjárlögum. Við sendum annað bréf í janúar 2019 og fengum sama svar, erindinu var hafnað.

Núna í febrúar 2019 verður enn og aftur sent bréf þar sem óskað verður eftir að forgangsröðun ráðuneytisins verður endurskoðuð. Biðlistar eftir dagdvalarrýmum fyrir fólk með heila­bil­unar­sjúkdóma hafa ekki bara áhrif á þá einstaklinga sem eru á biðlistum, þeir hafa einnig mikil áhrif á nánustu aðstandendur, fjölskyldu og vini.

Ég vona að heilbrigðisráðuneytið endur­skoði ákvörðun sína og leggi fjármagn í þetta verkefni.

Valdimar Víðisson
formaður fjölskylduráðs Hafnarfjarðarbæjar

Greinin birtist í Fjarðarfréttum, fréttablaði Hafnfirðinga, 21. febrúar 2019.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2