Í ágúst 2018 voru ákvarðanir bæjarráðs og bæjarstjórnar Hafnarfjarðar kærðar til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins; annars vegar varðandi framkvæmdir á Kaplakrika og hins vegar vegna rammasamkomulags og viðauka við fjárhagsáætlun fyrir árin 2018-2021. Álit samgöngu– og sveitarstjórnarráðuneytisins var kynnt á fundi bæjarráðs þann 26. september síðastliðinn.
Málið rekið áfram af tilfinningalegri heift
Ég hef sagt það áður, bæði á fundum og við einstaka fulltrúa minnihlutans, að mér hafi þótt framganga þeirra og málflutningur í málinu hafa farið út fyrir alla skynsemi. Málið var rekið áfram af tilfinningalegri heift í garð nýs meirihluta, í minn garð og bæjarstjóra. Það verður ekki hjá því komist að nefna ótrúlega orðræðu og sömu heift þessara fulltrúa minnihlutans gagnvart framkvæmdinni sjálfri, einu tilteknu íþróttafélagi hér í bænum, Fimleikafélagi Hafnarfjarðar, og einstaka persónum sem þar hafa verið í forsvari.
Niðurstaða ráðuneytisins skýr
Álit ráðuneytisins staðfestir að afgreiðsla bæjarráðs 8. ágúst 2018 á rammasamkomulagi um framkvæmdir á Kaplakrika hafi verið í samræmi við heimildir og engar athugasemdir eru gerðar við fundarboð og meðferð málsins á bæjarstjórnarfundi viku síðar. Ráðuneytið gerir ekki heldur athugasemdir við greiðslu á 100 milljónum króna samkvæmt rammasamkomulaginu þann 16. ágúst 2018, þar sem viðauki við fjárhagsáætlun hafi verið samþykktur í bæjarstjórn, sex dögum síðar, þann 22. ágúst. Ráðuneytið telur þó að réttara hefði verið að staðfesta viðauka áður en greiðslan fór fram og verður það sjónarmið haft til hliðsjónar hjá Hafnarfjarðarbæ við afgreiðslu sambærilegra mála í framtíðinni. Er það mat ráðuneytisins að þessi ágalli hafi engin áhrif á lögmæti greiðslunnar og því sé ekki tilefni til frekari aðgerða í málinu.
Málinu lokið
Nú er málinu loks lokið með þessu áliti ráðuneytisins og ég skal alveg viðurkenna það að mér er persónulega létt. Eftir situr hins vegar ákveðinn lærdómur, bæði hvað varðar samskipti manna í millum og varðandi þær ábendingar ráðuneytisins um það hvað betur megi fara í sambærilegum málum í framtíðinni. Ég vona að við getum öll verið sammála um það.
Ágúst Bjarni Garðarsson,
formaður bæjarráðs.
Greinin birtist fyrst í fréttablaðinu Fjarðarfréttum 2. október 2019