Við Hafnfirðingar höfum fundið harkalega fyrir fjársvelti undanfarinna ára þegar kemur að samgönguframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu. Hér hefur ríkt algjört stefnuleysi af hálfu ríkisvaldsins í þessum málum og það gaf því augaleið að nauðsynlegt væri að flýta samgönguframkvæmdum verulega hér á svæðinu. Það er því gleðilegt að slíkt samkomulag hafi nú náðst.
Hver vegur að heiman er vegurinn heim
Auk algjörs stefnuleysis og fjársveltis, fjölgun íbúa á þessu svæði, hefur orðið gríðarleg fjölgun ferðamanna með tilheyrandi auknu álagi á vegi hér innan Hafnarfjarðar. Nær allur þessi fjöldi ferðamanna leggur leið sína með einum eða öðrum hætti í gegnum bæinn. Stóraukið álag á Reykjanesbrautina, einu leiðina inn og út úr landinu, hefur þýtt aukið álag á innanbæjarvegi Hafnarfjarðar; bæði í gegnum miðbæinn og svo í gegnum Setbergið. Þetta þekkjum við íbúar auðvitað mjög vel og þá sérstaklega íbúar Setbergshverfisins á leið sinni inn og út úr hverfinu á álagstímum.
Tímamótasamkomulag ríkis og sveitarfélaga
Nú hefur náðst samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um fjárfestingu til samgönguframkvæmda fyrir 120 milljarða króna á næstu 15 árum. Þar er m.a. að finna raunverulega lausn á þeim vanda sem ég nefni hér að ofan og hefur fjármagn verið aukið verulega til verkefnisins; fer úr 5 milljörðum í 13 milljarða, auk þess sem verkefnið er tímasett. Við Hafnfirðingar munum því sjá góða lausn á næstu árum, alveg frá Álftanesvegi að Lækjargötu. Fyrir mitt leyti hefði ég aldrei komið að slíku samkomulagi nema lausn sem þessi hefði náð fram að ganga og verið hluti af samkomulaginu. Samgönguráðherra á mikið hrós skilið fyrir sína vinnu og við Hafnfirðingar fáum loks þær samgöngubætur sem við höfum svo lengi beðið eftir.
Álögur eiga ekki að hækka
Ef fram heldur sem horfir mun umferð aukast um 40% á næstu 15 árum og tafir um 25%. Það er því mikilvægt að tryggja greiðari samgöngur og fjölbreyttari ferðamáta ásamt sérstakri áherslu á umferðaröryggi og að draga úr slysum á fólki. Álögur á eigendur ökutækja eiga ekki að hækka og verða meiri en nú er, þó svo að gjaldheimta kunni að taka breytingum vegna orkuskipta í samgöngum. Þetta er að mínu mati grundvallaratriði ef nást á sátt um þá leið sem hér er boðuð í þessu góða tímamótasamkomulagi sem náðst hefur milli ríkis og sveitarfélaga.
Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs.
Greinin birtist í 36. tbl. Fjarðarfrétta, 16. október 2019.