Um heim allan halda rótarýfélagar sérstaklega upp á daginn 23. febrúar en á þeim degi árið 1905 var Rótarýhreyfingin stofnuð. Dagurinn er gjarnan notaður til að vekja athygli á starfsemi hreyfingarinnar, ekki hvað síst í nánasta umhverfi klúbbanna.
Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar var stofnaður árið 1946 og hefur starfsemi klúbbsins verið blómleg alla tíð. Í klúbbnum eru um 70 félagar víðs vegar frá höfuðborgarsvæðinu þó aðallega Hafnarfirði og nágrenni. Í klúbbnum eru fulltrúar starfsgreina og eru konur sérstaklega velkomnar í klúbbinn.
Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar er einn af stærri rótarýklúbbum landsins og leggur árlega háar upphæðir í Rótarýsjóðinn en úr honum eru veitir styrktir til menningar- og mannúðarstarfs á mörgum sviðum. Klúbburinn hefur einnig styrkt ýmis verkefni í heimabyggð og erlendis og má af síðustu verkum nefna skilti um uppland Hafnarfjarðar, skógrækt og byggingu barnaheimilis í S-Afríku. Auk þess má nefna ýmis önnur verkefni í gegnum tíðina sem tengjast nærumhverfinu á sviði umhverfismála, forvarna, mennta, lista, vísinda og annað sem fellur undir megin áherslur Rotary International. Þá stefnir klúbburinn að því að setja upp bekki við göngustíginn sem liggur frá hesthúsunum við Kaldárselsveg í Kjóadal en stígurinn er hluti af svokölluðum Græna trefli.
Klúbburinn heldur vikulega hádegisverðafundi á fimmtudögum kl. 12:15 og einn kvöldfund síðasta fimmtudag í mánuði. Þannig verður næsti kvöldfundur þann 23. febrúar á degi Rótarý kl. 18:00 og hvetjum við alla sem áhuga hafa á að kynna sér málefni Rótarý hreyfingarinnar að mæta á fund fái þeir boð um það. Fundarstaður Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar er í salnum Sjónarhóli í FH húsinu við Kaplakrika. Á fundunum eru ávallt fjölbreytt og skemmtileg erindi og fyrirlesarar sem áhugavert er að hlusta á og læra af auk góðs félagsskapar.
Bjarni Ásgeirsson,
formaður rótarýfræðslunefndar Rkl. Hafnarfjarðar
Kolbrún Benediktsdóttir,
forseti Rkl. Hafnarfjarðar
Heimasíða klúbbsins Facebooksíða klúbbsins