fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimUmræðanSaman munum við sækja fram

Saman munum við sækja fram

Lilja D. Alfreðsdóttir skrifar

Saga Íslands síðastliðin 100 ár er saga framfara. Það er óumdeilt að menntun er drifkraftur framsækinna þjóðfélaga sem sækja fram og skara fram úr. Við sem samfélag erum stödd á krossgötum í menntamálum þar sem taka þarf stórar ákvarðanir sem munu hafa áhrif á framþróun okkar næstu áratugi. Þar má nefna áskoranir vegna nýliðunarvanda í kennarastétt, brotthvarf úr framhaldsskólum, lágt innritunarhlutfall í iðngreinar og læsi barna.

Undanfarið hefur orðið töluverð vitundarvakning um þessar áskoranir sem og aðrar sem snúa að menntakerfinu. Áhersla á að hefja kennarastarfið aftur til vegs og virðingar er orðið nokkuð reglulegt umfjöllunarefni ásamt því að skólakerfið okkar verði í stakk búið til þess að veita öllum börnum  gæðamenntun sem hentar hverjum og einum. Þar gegna sveitarfélögin lykilhlutverki.

Börnin okkar eru grunnur samfélagsins. Það er mikilvægt að treysta faglegar undirstöður grunnskólanna og efla menntun, félagslíf og vellíðan þeirra. Heildstæð nálgun á skóla-, íþrótta-, og frístundamál er mikilvæg með það að markmiði tryggja jafnt aðgengi allra barna að ofangreindum þáttum óháð efnahag. Þannig tryggjum við blómlegri samfélög þar sem öll börn fá notið sín.

Í sveitarstjórnarkosningum þann 26. maí næstkomandi verður meðal annars kosið um áherslur í mennta-, íþrótta-, og æskulýðsmálum. Ég hvet íbúa Hafnarfjarðar til þess að kynna sér sérstaklega þær áherslur sem listi Framsóknar og óháðra hefur í málefnum barna og ungmenna. Framboðið hefur lagt fram metnaðarfulla kosningastefnuskrá til þess að sækja fram fyrir bæjarfélagið. Það að bæta samfélagið er samvinnuverkefni okkar allra. Tökum þátt í þeirri vegferð og nýtum kosningaréttinn í komandi kosningum.

Lilja D. Alfreðsdóttir
mennta- og menningarmálaráðherra.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2