Hér í íþróttabænum Hafnarfirði er blómlegur vöxtur íþrótta- og tómstundafélaga.
Það er þó ákveðið lúxusvandamál að hafa þennan blómlega vöxt. Fjölbreytt félög valda því að skortur er á aðstöðu, fjármagni til íþróttamála er dreift á marga og hætta er á að það þynnist út. Grunnkostnaður við rekstur íþróttafélaga og mannvirkja er mikill og reynist minni félögum nánast óbærilegur.
Ég sé fyrir mér ávinning af auknu samstarfi milli íþróttafélaga sem hafa samlegðaráhrif, þurfa svipaðan grunnflöt fyrir æfingar sínar og svipuð tæki og tól. Aukið samstarf íþróttafélaga hér í Hafnarfirði getur styrkt félögin sjálf og bætt þjónustuna sem þau veita iðkendum sínum. Það getur einnig aukið fjölbreytni þess gróskumikla starfs sem við búum við hér í bænum. Við getum verið stolt af því fjölbreytta íþróttastarfi sem unnið er af öflugu fólki innan félaganna sem börn og ungmenni njóta góðs af.
Umhverfi íþróttastarfs og rekstur íþróttafélaga hefur breyst mikið á undanförnum árum. Í dag eru gerðar meiri kröfur og vaxandi ábyrgð er lögð á herðar örfárra starfsmanna og sjálfboðaliða, sem vinna ómetanlegt starf fyrir félögin og bæjarfélagið allt. Þó er ekki minni krafa gerð til fámennari íþróttafélaga, en þau geta ekki boðið upp á sömu þjónustu og stærri félög. Hér tel ég að bærinn þurfi að stíga inn, leiðbeina og aðstoða þessi félög með samtali um mögulegt samstarf.
Það væri mikill ávinningur fyrir þessi félög ef þau sæju sér hag í að sameinast um húsnæði. Fjölnota íþróttahús hafa víða eflt og jafnvel gjörbylt starfi íþróttafélaga. Byggja mætti sameiginlega aðstöðu sem hýsir bardagaíþróttir, fimleika, dans, blak, útivistarklúbba og aðrar jaðaríþróttir. Slík sameiginleg aðstaða gæti mögulega létt rekstur margra þessara félaga, þar sem hægt væri að samnýta mannauð, reynslu, búnað og aðstöðu. Einnig tel ég að slíkt hús stuðli að fjölgun fjölbreyttra íþróttagreina, nái til fleiri iðkenda og gefi minni og óhefðbundnari greinum aukið vægi og svigrúm.
Fyrir fjárhagsáætlun Hafnarfjarðabæjar fyrir árið 2025 lagði ég fram tillögu fyrir hönd Viðreisnar í fræðsluráði Hafnarfjarðar um að hafin verði vinna við að greina þörf á fjölgreinahúsi. Í Hafnarfirði eru mörg félög sem hafa kallað eftir húsnæði, endurnýjun húsnæðis eða aðstoð frá Hafnarfjarðarbæ til þess að geta haldið starfsemi áfram. Gera þarf úttekt á húsnæðismálum félaga og samlegðaráhrifum; skoða þarf möguleika á samnýtingu húsnæðiskosts fyrir félögin í samstarfi við fulltrúa þeirra. Vel var tekið í þessa tillögu og vinnan við greininguna fer því að að hefjast fljótlega. Ég hlakka mikið til að eiga í samstarfi við fulltrúa íþrótta- og tómstundafélaga bæjarins í þeirri vinnu.
Karólína Helga Símonardóttir
fulltrúi Viðreisnar í fræðsluráði Hafnarfjarðar og varabæjarfulltrúi Viðreisnar.