fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirPólitíkSamfylkingin skilar auðu í málefnalegri umræðu

Samfylkingin skilar auðu í málefnalegri umræðu

Ó. Ingi Tómasson bæjarfulltrúi skrifar:

Grein eftir Friðþjóf Helga Karlsson, varabæjarfulltrúa Samfylkingarinnar vakti athygli mína. Þar sem varabæjar­fulltrúinn fer fram á ritvöllinn með full­­yrðingar sem ekki standast vil ég að eftirfarandi komi fram.

Óbyggt árið 2014

Við upphaf yfirstandandi kjörtímabils voru fyrir utan lóðir í Skarðshlíð eitthvað um 500 – 600 íbúðir í byggingu og óbyggðar lóðir víðs vegar í bænum, nægir þar að nefna Norður­bakkann, Skipalónið og Vellina. Síð­ustu lóðunum á Völlum 6 var úthlutað á síðasta ári og enn er verið að byggja fjölbýli á lóðum sem var úthlutað á árunum 2005-6. Ár­­leg þörf á íbúðum í Hafnarfirði er um 200 miðað við meðaltalsfjölgun íbúa síðustu 13 ára. Með þessar upplýsingar var farið í að endurskoða skipulag Skarðs­hlíðar.

Skarðshlíð

Skipulag Skarðshlíðar (Vellir 7) var upphaflega samþykkt árið 2007, breytt aftur árið 2013. Við upphaf kjörtímabils á miðju ári 2014 sátum við uppi með lóðir og skipulag sem ekki hafði vakið áhuga til uppbyggingar. Skipu­­lagi var breytt til að bregðast við breyttum áhersl­um um minni íbúðir og hag­kvæmari sérbýli. Í fyrsta áfanga voru úthlutaðar 241 íbúð í fjölbýli, í öðrum áfanga eru 165 lóð í sérbýli sem flestar voru auglýstar til úthlutunar á síðasta ári. Þriðji áfangi um 120 íbúðir verða aug­lýstar þegar við sjáum fram á að Hamra­­neslínurnar verða teknar niður, en það er önnur löng saga.

Skipulag til framtíðar

Skipulagsvinna í Hamranesi lofar góðu þar verður fjölbreytt byggð fyrir allt að 2000 íbúa á öllum aldri. Nokkrir reitir eru í vinnslu misjafnlega langt komnir má þar nefna Suðurgötu 44, gamla Kató sem verður breytt í íbúðir og á Dvergsreitnum er gert ráð fyrir um 20 íbúðum. Svo er það stóra málið sem Friðþjófur nefnir, „tækifæri til þéttingar og endurskipulagn­ingu byggðar m.a. á Hraun­unum“. Telur hann að við sé­um að draga lappirnar í að vinna að nýju skipulagi á því svæði. Við í meirihluta bæjar­stjórnar samþykktum að fag­legur starfshópur yrði fengin til að meta tækifæri til þéttingar byggðar, hópurinn skilaði góðri skýrslu ásamt því að haldinn var kynningarfundur og sýning í Hafnarborg um niðurstöðuna. Í fram­haldinu var ákveðið að ráðast í endur­skipu­lagningu á iðnaðarsvæðinu á „Hraunum“ um 30 ha. svæði. Upphaf þess máls var í febrúar 2016, skipu­lagslýsing var samþykkt, samkeppni um skipulagið var haldin, kynningar­fundir hafa verið haldnir og tvær arkitektastofur voru ráðnar til verksins. Þess má geta að Vogabyggðin í Rvk. sem er sambærilegt verkefni hefur ver­ið í vinnslu frá árinu 2012 og ekki er enn hafin uppbygging þar. Á næstu dögum verður kynningarfundur um rammaskipulag svæðisins þar sem kynntar verða hugmyndir að skipulagi fyrir allt að 2300 íbúðir ásamt verslun og þjónustu, stutt er í skipulagið klárist og í framhaldinu geta lóðarhafar byrjað deiliskipulagsvinnu og framkvæmdir. Þar sem varabæjarfulltrúinn nefnir fjölda íbúða í Rvk. til úthlutunar á síðasta ári þá má nefna að íbúum í Hafnarfirði fjölgaði á síðustu tveimur árum um 5,6% á meðan íbúum í Rvk. fjölgaði um 3,5%. Það er margt jákvætt og spennandi að gerast í skipulagsmálum hjá okkur Hafnfirðingum og miður að fulltrúar Samfylkingarinnar skuli finna sig sífellt knúna til að tala sveitarfélagið okkar niður.

Ó. Ingi Tómasson, bæjarfulltrúi (D) og for­maður skipulags- og byggingarráðs.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2