Grein eftir Friðþjóf Helga Karlsson, varabæjarfulltrúa Samfylkingarinnar vakti athygli mína. Þar sem varabæjarfulltrúinn fer fram á ritvöllinn með fullyrðingar sem ekki standast vil ég að eftirfarandi komi fram.
Óbyggt árið 2014
Við upphaf yfirstandandi kjörtímabils voru fyrir utan lóðir í Skarðshlíð eitthvað um 500 – 600 íbúðir í byggingu og óbyggðar lóðir víðs vegar í bænum, nægir þar að nefna Norðurbakkann, Skipalónið og Vellina. Síðustu lóðunum á Völlum 6 var úthlutað á síðasta ári og enn er verið að byggja fjölbýli á lóðum sem var úthlutað á árunum 2005-6. Árleg þörf á íbúðum í Hafnarfirði er um 200 miðað við meðaltalsfjölgun íbúa síðustu 13 ára. Með þessar upplýsingar var farið í að endurskoða skipulag Skarðshlíðar.
Skarðshlíð
Skipulag Skarðshlíðar (Vellir 7) var upphaflega samþykkt árið 2007, breytt aftur árið 2013. Við upphaf kjörtímabils á miðju ári 2014 sátum við uppi með lóðir og skipulag sem ekki hafði vakið áhuga til uppbyggingar. Skipulagi var breytt til að bregðast við breyttum áherslum um minni íbúðir og hagkvæmari sérbýli. Í fyrsta áfanga voru úthlutaðar 241 íbúð í fjölbýli, í öðrum áfanga eru 165 lóð í sérbýli sem flestar voru auglýstar til úthlutunar á síðasta ári. Þriðji áfangi um 120 íbúðir verða auglýstar þegar við sjáum fram á að Hamraneslínurnar verða teknar niður, en það er önnur löng saga.
Skipulag til framtíðar
Skipulagsvinna í Hamranesi lofar góðu þar verður fjölbreytt byggð fyrir allt að 2000 íbúa á öllum aldri. Nokkrir reitir eru í vinnslu misjafnlega langt komnir má þar nefna Suðurgötu 44, gamla Kató sem verður breytt í íbúðir og á Dvergsreitnum er gert ráð fyrir um 20 íbúðum. Svo er það stóra málið sem Friðþjófur nefnir, „tækifæri til þéttingar og endurskipulagningu byggðar m.a. á Hraununum“. Telur hann að við séum að draga lappirnar í að vinna að nýju skipulagi á því svæði. Við í meirihluta bæjarstjórnar samþykktum að faglegur starfshópur yrði fengin til að meta tækifæri til þéttingar byggðar, hópurinn skilaði góðri skýrslu ásamt því að haldinn var kynningarfundur og sýning í Hafnarborg um niðurstöðuna. Í framhaldinu var ákveðið að ráðast í endurskipulagningu á iðnaðarsvæðinu á „Hraunum“ um 30 ha. svæði. Upphaf þess máls var í febrúar 2016, skipulagslýsing var samþykkt, samkeppni um skipulagið var haldin, kynningarfundir hafa verið haldnir og tvær arkitektastofur voru ráðnar til verksins. Þess má geta að Vogabyggðin í Rvk. sem er sambærilegt verkefni hefur verið í vinnslu frá árinu 2012 og ekki er enn hafin uppbygging þar. Á næstu dögum verður kynningarfundur um rammaskipulag svæðisins þar sem kynntar verða hugmyndir að skipulagi fyrir allt að 2300 íbúðir ásamt verslun og þjónustu, stutt er í skipulagið klárist og í framhaldinu geta lóðarhafar byrjað deiliskipulagsvinnu og framkvæmdir. Þar sem varabæjarfulltrúinn nefnir fjölda íbúða í Rvk. til úthlutunar á síðasta ári þá má nefna að íbúum í Hafnarfirði fjölgaði á síðustu tveimur árum um 5,6% á meðan íbúum í Rvk. fjölgaði um 3,5%. Það er margt jákvætt og spennandi að gerast í skipulagsmálum hjá okkur Hafnfirðingum og miður að fulltrúar Samfylkingarinnar skuli finna sig sífellt knúna til að tala sveitarfélagið okkar niður.
Ó. Ingi Tómasson, bæjarfulltrúi (D) og formaður skipulags- og byggingarráðs.