fbpx
Fimmtudagur, júlí 18, 2024
HeimUmræðanSíðasta leiðarinn – nr. 836

Síðasta leiðarinn – nr. 836

Leiðari ritstjóra, 18. desember 2019, í síðasta prentaða blaði Fjarðarfrétta

Í dag, 18. desember 2019, kemur út síðasta prentaða blað Fjarðarfrétta.
Undirritaður hefur ritstýrt bæjarblaði í Hafnarfirði frá 2001, fyrst Fjarðarpóstinum til 2016 og síðan Fjarðarfréttum frá 2016 til loka árs 2019. Alls eru tölublöðin orðin 836 og leiðararnir jafn margir. Hér má lesa leiðara nr. 836

Kæri lesandi, nú er komið að tímamótum. Þetta blað verður síðasta prentaða útgáfan af Fjarðar­fréttum, a.m.k. um sinn.

Rekstrarumhverfi bæjarblaða er þannig háttað að því er næstum sjálfhætt og nýtt fjölmiðlafrumvarp breytir þar litlu enda ekki gert ráð fyrir því að ritstjórar taki sumarfrí og krafa gerð um 48 tölublöð á ári. Bæjarblað ætti að vera hverju sveitarfélagi ánægju­legur fylgifiskur enda slík blöð mikilvægur þáttur í að skapa umræðu í bænum og að kynna menninguna í bænum svo eitthvað sé nefnt. Í raun eru bæjarblöð mikilvægur þáttur í menningarlífinu þó hafnfirsk bæjaryfirvöld sýni þeim ekki mikinn áhuga, a.m.k. ekki ef þau vilja halda sjálfstæði sínu.

Bæjaryfirvöld hafa kosið þá stefnu að kaupa auglýsingar fyrir tvöfalt hærri upphæð á hvert tölublað í blaði sem gætir þess að segja aldrei gagnrýnisorð um bæjarstjórnina. Bæjaryfirvöld hafa kosið að kaupa frekar auglýsingar og kynningar í utanbæjarblöðum og hika ekki við að kaupa jákvæðar kynningar þar. Bæjaryfirvöld hafa frekar kosið að reka eigin fréttastofu og senda helst aðeins frá sér ritstýrt efni. Bæjaryfirvöld kjósa að framleiða viðtalsþætti þar sem valdir starfsmenn bæjarins tala hvor við annan. Bæjaryfirvöld kjósa frekar að gefa út eigin blöð og kosta til þess miklu almannafé án þess að tilgangurinn sé ljós.

Það þarf enginn að fara í grafgötur með það að undirritaður er óhress með bæjaryfirvöld. Ávallt hefur þurft að berjast fyrir auglýsingum frá Hafnarfjarðarbæ og hefur þá ekki skipt hvaða stjórnmálaflokkar eru við völd. En nú keyrir um þverbak.

Þetta er þó ekki eina ástæðan, því fyrirtæki hafa í auknum mæli kosið að nýta aðeins samfélagsmiðla og útvarp til að kynna sína þjónustu á kostnað prentmiðla.
Við þessi tímamót er horft björtum augum á framtíðina og á þá möguleika sem alls staðar liggja í loftinu. Er öllum samstarfsaðilum þakkað ánægju­legt samstarf, fyrirtækjum og stofnunum fyrir ánægjuleg viðskipti og ekki síst lesendum fyrir tryggð og ánægjuleg samskipti í gegnum árin. Þá er öllum þeim sem lagt hafa blaðinu til efni á einhvern máta þakkað með von um áframhaldandi ánægjulegt samstarf á fréttavefnum www.fjardarfrettir.is

Upplýsingar um það sem er að gerast berast ekki af sjálfu sér og Facebook er eins og botnlaus tunna þar sem aðeins efsta lagið sést.

Bæjarbúar og fyrirtækjaeigendur eru hvattir til að senda fréttaskot og ábendingar um efni og viðburði á fjardarfrettir@fjardarfrettir.is

Nú er jólahátíðin að færast yfir og allir reyna að gera sér dagamun á þann hátt sem þeim er lagið. Megi gleði og friðarins jól vera í huga þínum og ég óska þess að gæfa fylgi þér og þínum á komandi ári.

Guðni Gíslason

Gleðileg jól og takk fyrir árið sem er að líða.
Guðni Gíslason ritstjóri.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2