fbpx
Laugardagur, janúar 18, 2025
HeimUmræðanSilfurmerki afa míns

Silfurmerki afa míns

Jón Ingi Hákonarson skrifar

Fyrir sléttum tveimur árum fékk ég arf silfurmerki SÍS sem afi minn Jón Ingi Rósantsson, klæðskeri og samvinnumaður fékk á sínum tíma. Ég geymi það á góðum stað og fáir gripir eru mér dýrmætari því það minnir mig á það sem skiptir máli í lífinu. Afi minn kenndi mér margt og hafði mikil áhrif á líf mitt, því miður fór hann allt of snemma. Hann kenndi mér mikilvægi dugnaðar, heiðarleika, staðfestu og það mikilvægasta var að vanda sig. Vandvirkari mann hef ég ekki enn hitt.

Á kjördag ætla ég að bera þennan dýrgrip í barmi til að minna mig á það hvað skiptir máli, ekki bara í pólitíkinni heldur í lífinu öllu. Það sem mér hefur þótt vænst um á síðustu fjórum árum er sú staðreynd að ég skulda engum neitt og enginn á greiða inni hjá mér. Það er hið raunverulega frelsi stjórnmálamannsins og það frelsi mun ég aldrei gefa frá mér.

Komandi bæjarstjórnarkosningar eru mikilvægari en oft áður þar sem hér fá kjósendur tækifæri til að gera upp stormasamt og umdeilt kjörtímabil þar sem valdhafar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks seldu HS Veitur, innviðafyrirtæki á einokunarmarkaði, á spottprís þvert á vilja bæjarbúa.

Atkvæði greitt meirihlutaflokkum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er í raun leyfisbréf og blessun til þessara flokka og allra stjórnmálamanna sem hygla sérhagsmunum á kostnað almannahagsmuna. Atkvæði til þessara flokka eru skilaboð um það að í stjórnmálum leyfist hvað sem er svo lengi sem flokkarnir lofi öllu fögru í næstu kosningum.

Á kjördag er valið og valdið þitt. Nýttu það til góðra verka.

Kjósum breytingar, ég ætla að kjósa Viðreisn.

Jón Ingi Hákonarson,
oddviti Viðreisnar

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2