Sjóðböð og sjósund er vaxandi útivist á Íslandi. Víða um landið kemur fólk saman, baðar sig og syndir lengra eða skemur við ströndina í sinni byggð. Engin þarf að efast um heilnæmi þess að stinga sér í sjóinn ef hann er hreinn og öryggis er gætt, um það hafa verið skrifaðar lærðar greinar.
Frá náttúrunnar hendi er eyjan Ísland kjörin til til að stinga sér sunds og Hafnarfjörður er þar engin undantekning. Bærinn á sér ríka sjósundssögu og margir eiga foreldra, ömmur og afa sem lærðu sundtökin í sjónum við gömlu sundlaugin. Og enn í dag sækir fólk einmitt þangað, í Sundhöllina til hafa fataskipti áður en það baðar sig í sjónum við Langeyrarmalir. Starfsfólk sundlaugarinnar tekur vel á móti sjósundsfólki, bíður það velkomið og stjanar við það þrátt fyrir að sjósundsgarpar fari ekki endilega vel saman við hefðbundna sundlaugargesti. Aðstaðan gerir einfaldlega ekki ráð fyrir þessum vaxandi hópi en því mætti hæglega kippa í liðinn.
Vel mætti hugsa sér að nýta sundlaugagarðinn til þess að taka á móti þeim sem klæðast sundskóm, hönskum, hettum, jafnvel heilgöllum og kútum sem legið hafa í sjónum. Þangað mætti opna inn og koma fyrir útklefum og útisturtu. Jafnvel gufuklefa fyrir bæði kynin sem sárlega vantar í laugina fyrir. Fátt er betra en gufa eftir sundtök í köldum sjónum. Í leiðinni væri ráð að hressa lítillega upp á garðinn, gera hann aðeins meira aðlaðandi og lifandi með gróðri, litum, sólbekkjum eða æfingatækjum. Jafnframt þarf að lengja opnunartímann, t.d. hafa opið fyrri hluta laugardags og sunnudags en laugin er nú lokuð um helgar.
Við Langeyrarmalirnar sjálfar mætti svo koma fyrir básum með lítilli fyrirhöfn til að bregða sér úr sloppnum og kannski hengja hann upp. Annað ekki, mölin er fín eins og hún er og fullkomin lending, það þarf ekki meira til.
Með þessu móti væri komið rækilega til móts við ört vaxandi hóp sjósundsfólks í Hafnarfirði sem nýtur þess að stinga sér í sjóinn í bænum sínum. Þá er ekki ólíklegt að framtakið veki athygli, laði að sundgarpa hvaðanæva að sem nýta ferðina í fjörðinn og þiggja þjónustu og veitingar á viðburðum og veitingastöðum í bænum.
Davíð Arnar Stefánsson.