fbpx
Laugardagur, janúar 18, 2025
HeimFréttirSkipulagsmálSkarðshlíð, samspil skipulags og umhverfissjónarmiða

Skarðshlíð, samspil skipulags og umhverfissjónarmiða

Ó. Ingi Tómasson skrifa

Á næstu dögum verður auglýst úthlutun á sérbýlislóðum í Skarðshlíð, lóðirnar sem fara í úthlutun eru undir einbýli og parhús, einnig verð­ur auglýst eftir tilboðum í lóðir sem lögaðilar einir geta sótt um samkvæmt almennum reglum um úthlutun lóða og sölu byggingarréttar. Alls eru þetta um 160 sérbýli þar af eru fjórar parhúsalóðir ætlaðar undir sambýli. Stutt er í að framkvæmdir við fjölbýlis­húsin í Skarðshlíð hefjist, samgöngur við hverfið verða betri með tilkomu tengingar Ás­­valla­brautar/Ás­brautar við Krýsu­víkur­veg, mislæg­um gatnamótum við Reykja­nesbraut og væntanlegri Ás­­vallabraut, auk þess sem gert er ráð fyrir að Borgarlínan tengist Valla­hverfinu.

Vistvæn nálgun

Skipulag Skarðshlíðar var tekið til endurskoðunar og breytt veru­lega til samræmis kröfu um minna sérbýli og vistvænt umhverfi. Helstu nýmæli í skipulaginu er að horfið er frá því að hvert og eitt hús sé með sínar sorp­tunnur, þess í stað eru djúp­gámar staðsettir í vist­götum þar sem lögð er áhersla á flokk­un sorps. Byggingar­form eru brotin upp, garðar snúa til suðurs og víða eru þök hugsuð sem garðar og útirými. Áhersla er lögð á stíganet fyrir gangandi og hjól­andi vegfarendur. Nýmæli í skipulagi á Íslandi er að finna í skipulagi Skarðs­hlíðar sem er ákvæði um vist­götur þar sem vegfarandinn er settur í f­or­­gang. Með skipulaginu fylgir áhuga­verð skýrsla frá PRS Ráðgjöf, Vistgötur: Yfirlit um ávinning og stöðu þekkingar.

Einstök náttúra

Fyrir utan að skipulag Skarðhlíðar sé sérstaklega sniðið að landslaginu og sé í góðu skjóli fyrir norðan- og austan­áttum þá er skipulagið hannað til að allir íbúar geti notið sólar á móti suðri og útisvæði verða fjölbreytt leik-, athafnar og áningarsvæði. Handan við hæðina er að finna eina mesta útivistar­paradís landsins, uppland Hafnarfjarðar. Fyrir verðandi íbúa Skarðhlíðar sem og okkur Hafnfirðinga eru það forréttindi að hafa í göngufæri náttúruperlur upp­landsins. Skarðshlíðin er góður kostur fyrir þá sem kjósa vistvænan lífstíl og vilja njóta þess besta sem náttúra Íslands hefur upp á að bjóða.

Ó. Ingi Tómasson
bæjarfulltrúi og for­maður skipulags- og byggingarráðs.

Greinin birtist í Fjarðarfréttum, 24. tbl. 22. júní 2017

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2