Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðar var samþykkt í desember sem og fjárhagsáætlun annarra sveitarfélaga. Meirihlutinn dásamar stöðuna og mærir störf sín þrátt fyrir það að reglulegar tekjur standa ekki undir reglulegum útgjöldum, eignasala dekkar mismuninn eins og vanalega, nema hvað?
En það er erfitt að meta árangur nema í samanburði við önnur sambærileg sveitarfélög. Ágætt sjónarhorn er að bera saman rekstur og efnahag á hvern einstakling í stað þess að bera saman heildartölur.
Berum saman þrjú stærstu sveitarfélögin Reykjavík, Kópavog og Hafnarfjörð.
Mesta skattheimtan er í Hafnarfirði 1.265 þúsund á mann, minnst er hún í Kópavogi 1.142 þúsund en Reykjavík er örlítið dýrari 1.171 þúsund á mann. Rekstrarkostnaður er hæstur í Hafnarfirði 1.153 þúsund á mann en lægstur í Kópavogi 1.031 þúsund á mann og aftur er Reykjavík á milli með 1.133.
Stærstur hluti rekstrargjalda sveitarfélaga eru laun og launatengd gjöld. Það vekur athygli að af þessum þremur stærstu sveitarfélögum landsins fer lægra hlutfall kostnaðar í laun í Hafnarfirði eða rúm 57% en hlutfallið er ríflega 60% hjá Reykjavík og Kópavogi. Launakostnaðurinn er samt lægstur hjá Kópavogi þar sem hann er 622 þúsund krónur á hvern íbúa, 666 þúsund á hvern íbúa Hafnarfjarðar, hæstur er hann í Reykjavík 685 þúsund.
Heildarskuldir á hvern íbúa eru langhæstar í Hafnarfirði þar sem hver íbúi skuldar 1.637 þúsund krónur, hver Kópavogsbúi skuldar 1.255 þúsund og hver Reykvíkingur skuldar 1.368 þúsund.
Skýringin á meintum árangri er fyrst og fremst auknar álögur á Hafnfirðinga. Ef það er markmiðið, þá hafa Sjálfstæðisflokkur og Framsókn náð miklum árangri. Til hamingju með það. En það er ljóst af þessum samanburði að í Hafnarfirði eru mikil tækifæri til þess að bæta reksturinn og gera hann sjálfbæran.
Jón Ingi Hákonarson
bæjarfulltrúi (C)