Samkvæmt dagskrá bæjarstjórnarfundar í Hafnarfirði á morgun 10. apríl liggur fyrir fundinum að samþykkja breytingu á aðalskipulagi sem felur í sér 8 nýja borteiga fyrir Carbfix í Selhrauni og Kapelluhrauni. Á hverjum teig verða 8 borholur sem nýttar verða til dæla niður í jarðlögin CO2 sem flutt verður til landsins einhversstaðar frá og leyst upp í vatni úr Kaldárbotnum. Þessu fylgir eðlilega vegagerð og lagnatengingar auk hafnarframkvæmda og sitthvað fleira viðeigandi.
Fram hefur komið að framkvæmdirnar eru fyrirhugaðar í hrauni sem nýtur sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum, að miklu leyti óröskuðu hrauni. Einnig hefur komið fram að framkvæmdirnar geta haft talsverð áhrif á lífríki svæðisins og vatnafar, bæði grunnvatn og sjó úti fyrir Straumsvík. Svo er alltaf einhver hætta á mengun við starfsemina og mögulegum manngerðum jarðskjálftum í tengslum við niðurdælinguna. Því verður væntanlega gerð góð skil í umhverfismati sem enn liggur ekki fyrir.
Þá munu áætlanirnar (ef þær ganga eftir) einnig hafa mikil áhrif á bæjarsjóð en samkvæmt skýrslu um fjármögnunarleiðir vegna hafnarframkvæmdanna þá hleypur kostnaðurinn á bilinu 9-15 milljarðar eftir umfangi þeirra. Þrír kostir er nefndir sem leiðir til fjármögnunar:
- skuldabréfaútboð sveitarfélagsins
- fyrirframgreiðsla aðstöðugjalda
- einkaframkvæmd
Allar hafa þær sína kosti og galla en ákvörðun um fjármögnunarleið hefur ekki verið tekin allavega ekki verið kynnt fyrir íbúum.
Starfsemi Carbfix er í senn umfangsmikil, óvenjuleg og áhrifamikil. Það er því stór ákvörðun að breyta aðalskipulagi sveitarfélagsins sem felur í sér skýra yfirlýsingu um hug bæjarstjórnar í málinu. Mér er raunar til efs að nokkru fyrirtæki í Hafnarfirði hafi verið sýnd slík fyrirgreiðsla háð jafn mikilli óvissu og áhættu. Þrátt fyrir það er ákvörðun tekin áður en ákveðið er hvernig innviðaframkvæmdir bæjarins vegna fyrirtækisins eru fjármagnaðar, áður en samið er um aðstöðugjöld, áður en samið er um greiðslur fyrir not af auðlindum s.s. vatni og landi og áður en umhverfismat liggur fyrir.
Þetta síðastnefnda, mat á áhrifum starfsemi Carbfix á umhverfið og auðlindir bæjarins, er sennilega mikilvægasta forsenda verkefnisins frá bæjardyrum íbúa séð. Eftir sem áður vita bæjarfulltrúar ekki hverjar þær eru þegar þeir greiða atkvæði.
Davíð Arnar Stefánsson,
oddviti VG í Hafnarfirði