Hafnarfjörður þykir eitt fallegasta bæjarstæðið á Íslandi og því hefur verið fleygt fram að ef einhver bær annar en Reykjavík ætti að vera höfuðstaður Íslands þá væri það Hafnarfjörður. Í þessu sambandi má nefna að höfnin og næsta nágrenni er einstakt og aðgengilegt skipum af öllum stærðum og gerðum. Í þessu samhengi má minnast á að bærinn var vagga þilskipaútgerðar á 19. öldinni og fyrsta tilraunin til togaraútgerðar var gerð frá Hafnarfirði við lok 19. aldar. Bæjarfélagið hefur dregið að sér fjölda fólks hvaðanæva af landinu sem hefur komið að fjölbreyttu atvinnulífi okkar og af því getum við verði stolt.
Í seinni tíð er oft talað um íþrótta- og útivistarbæinn Hafnarfjörð enda fá bæjarfélög sem státa af jafn mörgum Íslandsmeisturum og bæjarfélagið okkar. Hafnarfjörður hefur svo sannarlega mörg séreinkenni sem ber að varðveita og halda á lofti. Nú er talað um þéttingu byggðar í Hafnarfirði og að í því skyni verði hugsanlega nýttir grænir blettir í bænum, t.d. Óla Runs túnið. Grænir blettir eru víða í bæjarfélaginu okkar og er mikill sómi af þeim. Á sumrin eru grænu blettirnir notaðir af fjölskyldufólki fyrir almenna útiveru og það væri sárt að sjá breytingu þar á. Þétting byggðar á alls ekki að beinast að grænu blettunum sem eru að jafnaði mikil bæjarprýði. Bæjarfélagið ætti að stefna á að fjölga grænu blettunum og skapa íbúum betri aðstöðu fyrir útivist og samveru.
Það skiptir máli fyrir Hafnarfjörð að varðveita þá götumynd sem er við sjávarsíðuna og lágmarka þar alla háreista byggð. Í umræðunni er núna talað um að þétta byggð enn frekar við Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæði. Í skýrslu starfshóps um Flensborgarhöfn var mælt með lágreistri byggð. Því er afar mikilvægt að náið samráð verði haft við íbúa bæjarins og ekki verði hönnuð háreist byggð sem skyggir á íbúðabyggðir þeirra sem fyrir eru. Einnig væri miður ef sú bæjarmynd sem hafnarsvæðið er og umhverfið í kringum höfnina yrði afbakað með háreistum steypuklumpum.
Því segi ég vöndum okkur í skipulagsmálum og vinnum saman að bestu lausnunum fyrir Hafnarfjörð – áfram Hafnarfjörður.
Steinn Jóhannsson
skipar sjöunda sæti á lista Samfylkingarinnar í Hafnarfirði