Mikilvægt fyrir andlega og líkamlega heilsu að geta notið útiveru í fallegum garði
Byggja á 6 íbúðir með 8 m hæð á baklóð St. Jósefsspítala, og þrengja þar með að starfsemi og ásýnd Lífsgæðaseturs St. Jó. Ekki nóg með það heldur liggur svo mikið á að selja þessar lóðir til einkaaðila undir heitinu þétting byggðar að Þóruklöpp náttúruvætti og fornminjar sem hafa varðveislugildi í sögu sjúkrahússins fá ekki einu sinni að vera sjúkrahússmegin heldur seljast líka til einkaaðila. Auglýsing um umsóknir lóðanna er rétt rúmur hálfur mánuður. Hvað með almannarétt og aðkomu nærsamfélagsins. Hafnfirðingar eiga þessa lóð.
Hafnarfjarðarbær hefur ekki sinnt því að svara þeim einstaklingum sem gert hafa athugasemdir og eru aðilar máls eins og nágrannar sjúkrahússins. Ekki var rætt í upphafi breytinga við þá sem reka starfsemi í húsinu, hvernig þeir aðilar komi til með að sjá fyrir sér að starfsemi og umhverfi lífsgæðasetursins þróist í framtíðinni, eins og það skipti ekki máli hvernig umhverfi Lífsgæðasetursins er!
Hollvinasamtök St. Jósefsspítala eru stofnuð árið 2014. Sjúkrahús St. Jó. var lagt niður 2011 og hafa hollvinasamtökin gert athugasemdir, alveg frá því að ríkisvaldið ætlaði að selja sjúkrahúsið hæstbjóðanda. Hollvinasamtökin óskuðu eftir aðkomu Minjastofnunar Íslands sem telur allar byggingar sjúkrahússins þar með talið Kató hafa verndargildi út frá byggingarsögulegu sjónarmiði. Hollvinasamtökin hafa ítrekað gert athugasemdir við breytingu á stofnanalóð St. Jósefsspítala og fækkun bílastæða fyrir stofnunina, en að framanverðu við aðalinngang stofnunarinnar eru einungis 6 bílastæði. Nú verður baklóð St. Jósefsspítala verulega þrengd og skapað skuggavarp heim að byggingu sjúkrahússins. Hollvinasamtökin kærðu til úrskurðarnefndar Umhverfis og auðlindamála, eftir að Hafnarfjarðarbær svaraði ekki athugasemdum þeirra við breytingu á skipulagi.
Hollvinasamtökin hafa talað fyrir því að lóð St. Jósefspítala verði nýtt fyrir Lífsgæðasetrið og byggð upp sem slík. Margar rannsóknir liggja fyrir hversu mikilvægt það er fyrir andlega og líkamlega heilsu að geta notið útiveru, farið í göngu í nærumhverfi sínu og sest niður í fallegum garði við góðan aðbúnað, þá getur meðferðaraðili að sjálfsögðu nýtt slíka aðstöðu með skjólstæðingi sínum. Það sjá allir sem eitthvað hafa með endurhæfingu að gera andlega og líkamlega eins og t.d. þau fyrirtæki og félagasamtök sem starfa í Lífsgæðasetri St.Jó. Sorgarsamtökin, Parkinsonsamtökin, Alzheimersamtökin, Janus heilsuefling og fleiri góð fyrirtæki, hversu mikilvægt það er að umhverfi Lífsgæðaseturs St.Jó. sé heilsueflandi og uppbyggjandi.
Alls ekki eins og stefnt er að í dag þar sem ákvörðun bæjaryfirvalda er að troða 6 einkalóðum í bakgarð St.Jó.
Heilsuefling miðar að því að hafa áhrif á lífsstíl fólks og gera því kleift að lifa heilsusamlegu lífi við heilnæmar aðstæður og að umhverfi hafi áhrif á heilsu fólks samkv. skilgreiningu Landlæknisembættisins. Hafnarfjarðarbær er samkvæmt samningi frá 2015 heilsueflandi samfélag.
Hollvinasamtökin skora á bæjaryfirvöld að sýna framsýni og byggi upp heilsueflandi garð fyrir starfsemi Lífsgæðasetursins og falla frá úthlutun baklóða sjúkrahússins til einkaaðila. Bæjaryfirvöld geta tekið slíka ákvörðun, enda nægt lóðaframboð í Hafnarfirði.
Steinunn Guðnadóttir,
formaður Hollvinasamtaka St. Jósefsspítala