Í pistli á www.fjarðarfrettir.is þann 18. desember 2024 fullyrðir Ómar Smári Ómarsson að Carbfix-aðferðin sé hvorki sönnuð né vottuð, nema einungis af fyrirtækinu sjálfu en vísar þó ekki til neinna heimilda. Slík vinnubrögð bæta umræðuna ekki.
Fullyrðingin leiðir athyglina frá vísindalegum staðreyndum að skoðunum sem ekki standast.
Vísindaleg sönnun 2016
Carbfix aðferðin var vísindalega staðfest árið 2016 þegar rannsóknir unnar af fræðafólki frá Háskóla Íslands og erlendum samstarfsaðilum, voru birtar í Science – einu virtasta vísindatímariti heims. Greinin sýndi fram á hraða og varanlega bindingu CO₂ í basalti, sem opnaði nýjar leiðir í kolefnisbindingu, í raun byltingu á því hvað var hægt fram til þess tíma. Um leið staðsetti aðferðin Ísland í forystu varanlegra og sannaðra loftslagslausna. Greinina er hægt að nálgast hér. Myndband til útskýringar, sem sýnir hvernig CO₂ myndar steindir, má sjá hér.
Vottun óháðra aðila
Carbfix aðferðin hefur ekki einungis verið vísindalega sönnuð. Óháður vottunaraðili, Det Norske Veritas, hefur gert úttekt á starfseminni og árangri hennar til kolefnisbindingar og vottað hana gagnvart staðli Puro.earth. BeZero, sem metur trúverðugleika kolefniseininga, gaf þessari vottun hæstu einkunn sem fyrirtækið hefur nokkurn tímann gefið.
Hér má til dæmis nálgast vottaða aðferðafræði Carbfix við niðurdælingu á CO₂ vegna Orca verkefnisins á Hellisheiði.
Hér má nálgast upplýsingar um kolefniseiningar vottaðar af puro.earth vegna Mammoth verkefnisins á Hellisheiði.
Hreinleiki innflutts CO₂
Fullyrt hefur verið að innflutt CO₂ sé óhreint og innihaldi snefilefni. Ítrekað hefur verið bent á að innflutt CO₂ er jafnvel hreinna en það sem losað er út í andrúmsloftið hér innanlands. Séu raunverulegar áhyggjur af snefilefnum á að beina þeim að regluverki sem leyfir losun þeirra fremur en að gagnrýna lausn sem miðar að því að draga úr losun skaðlegra lofttegunda með jákvæðum áhrifum.
Skipaumferð og umhverfisáhætta
Nefnt hefur verið að CO₂ verði flutt hingað með skipum, og að það auki skipaumferð. Hingað kemur nú þegar mikill fjöldi skipa, meðal annars til að flytja inn jarðefnaeldsneyti sem er svo ekið með um allt land og geymt bæði ofanjarðar og neðan. Ef CO₂ lekur út í umhverfið er það verri kostur en að binda það í berg, en CO₂ eitt og sér veldur ekki umhverfisslysi á borð við olíuleka. Aðferðin miðar því að minnkun neikvæðra áhrifa en ekki aukningu.
Jarðskjálftar, eldvirkni og grunnvatn
Sérfræðingar ÍSOR og jarðvísindamenn hafa ekki haft áhyggjur af jarðskjálftum, eldgosum eða neikvæðum áhrifum á grunnvatn vegna Carbfix, en eðlilega eru gerðar kröfur um ítarlega vöktun sem Carbfix mun að sjálfsögðu uppfylla. Straumsvík er ekki eldvirkt svæði, og rannsóknir hafa sýnt hverfandi áhrif á jarðhræringar og grunnvatn. Undir þetta tekur Magnús Tumi Guðmundsson jarðfræðingur í kvöldfréttum Stöðvar 2 í júlí síðastliðnum sem má sjá og heyra hér á mínútu 08:20.
Stærra samhengi loftslagsaðgerða
Carbfix leysir ekki loftslagsvandann á eigin spýtur og hefur ekki haldið því fram. Brýnt er að draga úr bruna jarðefnaeldsneytis, auka endurnýjanlega orkugjafa og nýta fjölbreyttar náttúrulegar, tæknilegar og samfélagslegar lausnir. Hins vegar er Carbfix aðferðin mikilvæg leið til að draga úr áhrifum losunar á meðan við vinnum að heildarbreytingum í orkunotkun og bindum þá losun sem þegar hefur átt sér stað.
Því miður er of langt í að við getum skipt út jarðefnaeldsneyti til að það dugi til að afstýra hamfarahlýnun. Á meðan þarf að bregðast við losun gróðurhúsalofttegunda og koma í veg fyrir að þær valdi enn meiri skaða. Sum lönd hafa ekki þau jarðlög sem þarf til að binda losunina eins og við höfum. Það er okkar forskot og þess vegna er stefnt að innflutningi. Þar sem aðstæður leyfa bindingu í jarðlög erlendis með Carbfix aðferðinni verður það einnig gert þar.
Uppbygging og breytingar á skipulagi Hafnarfjarðar
Uppbygging Coda Terminal mun valda raski, rétt eins og hver önnur innviðaþróun. Hafnarfjörður og iðnaðarsvæðið mun líklega ekki standa óbreytt til framtíðar; spurningin er hvort bæjarfélagið vilji taka þátt í þróun sannaðrar loftslagslausnar sem styður við alþjóðleg markmið um minni losun.
Niðurstaða:
Gagnrýni er mikilvæg í umræðunni, en mikilvægt er að byggja hana á staðreyndum og vísindalegri þekkingu, ekki órökstuddum fullyrðingum. Carbfix er ritrýnd, alþjóðlega viðurkennd og vottuð aðferð til að binda CO₂ í berg, sem er skref í rétta átt í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.