Í okkar góða sveitarfélagi eru öflugir leik- og grunnskólar. Hafnarfjörður á að búa þannig um hnútana að önnur sveitafélög horfi til okkar hvað varðar fjölbreytt og öflugt skólastarf. Hafnarfjörður á að setja sér það markmið að skólasamfélagið okkar skipi sér í fremstu röð skólasamfélaga landsins.
Álag í starfi starfsmanna leik- og grunnskóla er mjög mikið. Mikilvægt er að viðurkenna það álag og leita leiða til að draga úr því. Á síðasta skólaári var farið í að skoða álagsþætti í starfi grunnskólakennara. Margt kom út úr þeirri vinnu sem þarf að greina betur og vinna með. Það þarf einnig að greina álagsþætti í starfi annarra starfsmanna grunnskólans. Fjölmargir sem vinna innan grunnskóla eins og skólaliðar, stuðningsfulltrúar, ritarar, námsráðgjafar, bókasafnsfræðingar og þroskaþjálfar. Það þarf að hlúa vel að þessum starfsmönnum því þeir, ásamt kennurum, eru ómissandi í daglegu starfi.
Mikilvægt er að skoða starfsumhverfi starfsmanna á leikskólum og greina álagsþætti og hvað við getum gert betur, svipuð vinna þarf að fara fram þar eins og var farið í með grunnskólakennurum.
Það er staðreynd að fleiri og fleiri hætta störfum eða fara í langtímaveikindaleyfi vegna álags. Því þarf að bregðast við.
Skólasamfélag í fremstu röð hefur á að skipa faglegu og öflugu starfsfólki, metnaðarfullum nemendum, áhugasömum og virkum foreldrum og öflugu nærsamfélagi. Við erum svo heppin að það er þannig hér í Hafnarfirði en það sem vantar uppá er aukið samstarf á milli allra aðila. Þurfum að efla það. Orðræðan um skólastarf er oft of neikvæð og því þurfum við að breyta. Tölum um það sem er vel gert og höldum því á lofti. Saman getum við náð svo langt. Samvinnan og samheldnin skiptir öllu máli. Sterkari saman fyrir hafnfirskt skólastarf.
Valdimar Víðisson
skólastjóri Öldutúnsskóla og skipar annað sætið á lista Framsóknar og óháðra.
Greinin birtist í 15. tbl. Fjarðarfrétta, 12. apríl 2018