fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirSkipulagsmálSkora á bæjaryfirvöld í Hafnarfirði að standa með uppbyggingu Lífsgæðasetursins St. Jó.

Skora á bæjaryfirvöld í Hafnarfirði að standa með uppbyggingu Lífsgæðasetursins St. Jó.

Steinunn Guðnadóttir skrifar:

Hollvinasamtök St. Jósefsspítala gerðu alvarlegar athugasemdir við breytingu á skipulagi lóðar St. Jósefsspítala.

Breytingin var auglýst undir heitinu Hlíðarbraut 10, en var jafnframt aðalskipulagsbreyting fyrir lóð St. Jósefsspítala Suðurgötu 41. Hollvinasamtökin sendu inn athugasemdir fyrir tilskilin athugasemdarfrest 4. júní 2020, en hafa fengið sem svar við athugasemdum sínum frá Hafnarfjarðarbæ: „Hollvinasamtök St. Jó. Ath. Skjalið frá þeim.

Hollvinasamtökin gátu ekki sætt sig við svör Hafnarfjarðarbæjar, og leituðu til úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála til að hlutast til um það að Hollvinasamtökin fengju svör við athugasemdum sínum.

Skipulagsbreytingin fólst í því að á baklóð St. Jósefsspítala sem nú kallast Lífsgæðasetur St. Jó. á að skipuleggja 6 íbúðir fyrir einkaaðila í stað þess að lóðin verði skipulögð og nýtt í þágu Lífsgæðasetursins. Lífsgæðasetrið hefur tekið eina hæð í notkun af fjórum og eru starfandi 15 rekstraraðilar á þeirri hæð. Rekstraraðilar fengu enga kynningu frá Hafnarfjarðarbæ með fyrirhuguðum breytingum á skipulagi. Gerðu þeir athugasemdir við skipulagið þar sem þeir óskuðu eftir því eins og Hollvinasamtökin að stofnanalóð St. Jó. yrði óbreytt og öll nýtt fyrir Lífsgæðasetur St. Jó.

Með skipulagsbreytingunum sem flokkast undir þéttingu byggðar, er þrengt verulega að starfsemi Lífsgæðasetursins. Mjög verður þrengt að umferð til og frá Lífsgæðasetrinu að þeim inngangi sem nú er nýttur sem aðalinngangur. Ekki er sjáanleg aðkoma almenningsfarartækja að inngangi þarna megin og erfiðara verður um vik fyrir gangandi umferð. Hollvinasamtök St. Jósefsspítala hafa áður mótmælt fækkun bílastæða við Suðurgötu þar sem nú eru eftir einungis 6 bílastæði, þrátt fyrir að aðalinngangur í Kapellu St. Jó. er Suðurgötumegin og skipulagt fyrir ýmsar samkomur. Í dag er Leikfélag Hafnarfjarðar þar til húsa.

Mikil veðursæld er  á baklóð sjúkrahússins, en það svæði kemur ekki til með að nýtast til útiveru fyrir starfsemi Lífsgæðassetursins og skjólstæðinga þess. Þá hefur umhverfi baklóðar menningarlegt gildi og eru klappirnar skráðar í heimildum sem álfabyggð. Þessi kennileiti koma til með að fara undir bílastæði og einkalóðir nái skipulagsbreyting bæjaryfirvalda fram að ganga.

Lífsgæðasetrið hefur alla burði til þess að vera í forystu á landsvísu með heilsueflandi starfsemi.

Óskiljanleg er breyting á viðhorfi bæjarstjórnar og metnaðarleysi fyrir hönd Lífsgæðasetursins að breyta opnu rými almennings og stofnanalóðar í einkalóðir.

Það er ekki skortur á íbúðalóðum í Hafnarfirði.

Mikilvægt er að stofnanalóð St. Jósefsspítala það sem eftir er af henni verði óbreytt og nýtt áfram fyrir almenning, skjólstæðinga Lífsgæðasetursins og starfsmenn þess.

Hollvinasamtök St. Jósefsspítala skora á bæjaryfirvöld í Hafnarfirði að standa með uppbyggingu Lífsgæðasetursins og halda í óbreytta stærð stofnanalóðar St. Jó. samkvæmt aðalskipulagi, og þar með falla frá áætlun um íbúðabyggð inn á viðkomandi stofnanalóð.

F.h. Stjórnar Hollvinasamtaka St. Jósefsspítala
Steinunn Guðnadóttir formaður.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2