Síðustu tvö ár hefur meirihluti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar lofað sig í hæstu hæðir fyrir góðan og ábyrgan rekstur. Meirihlutinn hefur talið okkur trú um að afgangur af grunnrekstri bæjarins sé á þriðja hundrað milljónir króna bæði árin.
Staðreyndin er hins vegar sú að síðustu tvö ár hefur grunnrekstur bæjarins verið með versta móti. Bæði árin hefur hallinn numið í kringum 1,7 milljörðum króna. Uppsafnaður halli er því um 3,5 milljarðar króna. Þessi halli hefur verið falinn með því að lauma gatnagerðargjöldum inn í grunnreksturinn og fegra þar með niðurstöðuna. Í mínum huga er þetta ekki samkvæmt lögum og reglum.
Tekjur bæjarins hafa verið með mesta móti undanfarin tvö ár sem stafar af mikilli lóðasölu og innheimtu gatnagerðargjalda. Hvorugt á að standa undir grunnrekstri heldur standa undir fjárfestingu í nauðsynlegum innviðum sem bærinn þarf að ráðast í vegna stækkunar.
Framsetning ársreikningsins er með þeim hætti að verið er að rugla saman nokkrum ólíkum hlutum til þess að slá ryki í augu íbúa.
Raunveruleikinn er því miður sá að undanfarin ár hefur bærinn fjármagnað hallarekstur með lántökum. Einnig hafa afborganir af eldri lánum verið fjármagnaðar með nýjum lánum. Slíkt á ekkert skylt við ábyrga fjármálastjórnun.
Því miður þarf að rýna ársreikninginn vel og átta sig á þeim bakfærslum sem þar eru gerðar til að sjá raunstöðuna. En skrattinn býr í smáa letrinu og því þarf að lúslesa þennan reikning til að átta sig á stöðunni.
Ég tel það vera skyldu mína að upplýsa íbúa um þetta misræmi og hvet þig lesandi góður að kynna þér málið.
Það er nefnilega þannig að ekki er hægt að breyta því sem ekki er uppi á borðum. Ef meirihlutinn trúir því að grunnreksturinn sé í blóma, þegar hann er það ekki, þá er ekki mikil von til þess að farið verði í nauðsynlegar aðgerðir til að ná jafnvægi í rekstrinum.
Jón Ingi Hákonarson
oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar