Fjárhagsáætlun er pólitísk stefnuyfirlýsing. Í henni birtast stefna og forgangsröðun þeirra flokka sem sitja í meirihluta hverju sinni. Um leið og fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar fyrir árið 2020 gerir ráð fyrir lakari rekstrarniðurstöðu og samdrætti í framkvæmdum birtist í henni forgangsröðun frjálshyggjunnar þar sem lögð er áhersla á að vernda þá efnameiri umfram hina tekjulægri.
Rekstrarafkoma á niðurleið
Rekstrarniðurstaða A-hluta bæjarsjóðs er einungis áætluð um 15 milljónir en tekjur B-hluta fyrirtækja, hafnarsjóðs, vatns- og fráveitu, hækka heildarniðurstöðuna. Staða bæjarsjóðs hefur farið hríðversnandi frá árinu 2017 þegar rekstrarniðurstaða var um helmingi hærri en áætlanir fyrir árið 2020 gera ráð fyrir. Gjöld hækka umfram tekjur og veltufé frá rekstri lækkar. Við blasir að stórlega verður dregið úr framkvæmdum og lítið sett í umhverfismál.
Lífskjarasamningar virtir að vettugi
Um leið og lagt er til að útsvarshlutfall verði óbreytt og sá tekjustofn sveitarfélagsins þar með ekki fullnýttur, á að sækja tekjur til eldri borgara, öryrkja og tekjulágra. Fullyrt er að standa eigi vörð um velferðina en þó er lagt til að heimaþjónusta eldri borgara og öryrkja hækki um 24,5%, akstursþjónusta eldri borgara um rúm 100% og leiga í félagslegu húsnæði um 21%. Með þessum hækkunum gefur meirihluti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar lífskjarasamningum langt nef og sendir eldri borgurum, öryrkjum og tekjulágum íbúum sveitarfélagsins kaldar (jóla)kveðjur. Á sama tíma hefur Samband íslenskra sveitarfélaga gefið út skýr tilmæli um að gjaldskrár hækki ekki umfram 2,5% til að styðja við lífskjarasamninga ríkisins, atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar. Þá er einnig ófyrirséð hvaða áhrif hækkun á fasteignamati kemur til með að hafa á hafnfirsk heimili.
Öllum breytingartillögum Samfylkingarinnar hafnað
Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram breytingatillögur við fjárhagsáætlun þar sem við meðal annars lögðum til að fallið yrði frá gjaldskrárhækkunum umfram 2,5%. Einnig lögðum við til að útsvarshlutfall yrði fullnýtt, m.a. til að verja þessa hópa sem hækkanirnar taka til. Þá lögðum við til niðurgreiðslu á strætókortum fyrir börn, hækkun á frístundastyrk til eldri borgara og uppbyggingu leikskóla í Öldutúnsskólahverfi. Skemmst er frá því að segja að tillögunum var öllum hafnað.
Jöfnuður og öflug velferðarþjónusta
Velferðarstefna Samfylkingarinnar hvílir á hugmyndum um félagslegt réttlæti og jöfnuð. Samfylkingin getur því ekki stutt tillögur um að sveitarfélagið afsali sér tekjum með því að fullnýta ekki útsvarshlutfall, sem gagnast best þeim sem hæstar tekjurnar hafa, á sama tíma og gjaldskrár á aldraða, öryrkja og tekjulága íbúa eru hækkaðar. Við viljum samfélag jöfnuðar sem styður við alla og einkum þá sem mest þurfa á stuðningi að halda.
Adda María Jóhannsdóttir,
Friðþjófur Helgi Karlsson
bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar.