„Mamma, mamma, megum við leika okkur á sleðanum úti núna?“
„Nei elskurnar, það er verður ekkert gaman á meðan að snjórinn rétt svo skreytir jörðina. Við þurfum að passa að skemma ekki túnið. Við bíðum bara eftir meiri snjó og þá getið þið skellt ykkur.
Ekki hef ég tölu á því hversu oft ég hef þurft að eiga svipað spjall við mín börn, vegna snjóleysis og skorts á „renna sér á sleða“ tækifærum á síðasta ári. Keyptur var sleði fyrir krakkana á litlar 12 þúsund krónur, með stýri og ekki hafa gefist nema svona fjögur almennileg tækifæri síðan þá.
Ætla ég að áætla að ég sé ekki eina foreldrið sem hefur þurft að sannfæra lítil andlit um að það komi betra tækifæri þegar snjórinn lætur almennilega sjá sig. Ætli þau hafi lagst á eitt þessir krakkar, aðfaranótt sunnudags? Látið á það reyna hvort að þessi guð sé til?
Það breytir því ekki að bænum þessa barna hefur verið svarað. Og mikið meira en það. Sem segir okkur bara eitt. Snjórinn sameinar fólk. Og nú er ég ekki að segja að bænir barnanna hafi haft einhver áhrif.
Óhjákvæmilegt að bregðast við
Fólk þarf að ná í skóflur og byrja að moka. Já, svo hægt sé að koma bílnum úr stæðinu. Og opna hann. Sé maður í þannig stöðu. Ryðja gangveginn, geta opnað útidyrahurðir á fyrstu hæð og svo lengi mætt telja. Svo ekki sé minnst á alla „snjóbrekku“stigana sem þarf að breyta í þrep aftur.
Samskipti opnast og einlægni skapast í þessum merkilega tengjandi aðstæðum. Af hverju? Vegna þess að fólk hjálpast ekki bara að, heldur sama hversu ríkur þú ert að þá erum við skyndilega öll í sömu, djúpu snjósporunum. Flesta langar að náunganum gangi vel að komast út úr hvimleiðum hindrunum snjóskaflanna. Allir fá tækifæri á að sýna sínar bestu hliðar og mannúðin fær að skína í gegn. Til að byrja með þarf þó hver og einn að standa undir sjálfum sér. Alveg eins og í lífinu.
Viðleitnin til að gera sitt besta og demba sér í hlutina af öllu sínu hugrekki kemur fram þegar maður mætir hugsanlegum skorti. En hver er tryggingin fyrir því að manni takist ætlunarmarkmiðið? Er hugrekkið eina vopnið? Næ ég árangri í að skófla snjónum ef ég stend rosa hugrökk með eina risa snjóskóflu fyrir framan stigann minn og stóla á heppni?
Nei. Ég þarf plan. Planið þarf ekki að vera langt. En ég þarf að erfiða, gera meira en ég nenni. Ég þarf líka skilgreiningu á vandamálinu til að skilja þrautina. Galdurinn er að hafa þrautseigju og það er persónubundið hvernig þrautseigja hvers og eins þróast. En að þróa með sér vantrú á sjálfum sér er eitur. Mikilvægast er að gera sér grein fyrir hvað það er sem maður raunverulega getur. Vandi skapast í fullkomnunaráttuholunni
Sigurvegarinn – ekki sökudólgurinn
Um leið og þú hættir að spyrja sjálfan þig af hverju þú ættir að hafa trú á draumnum þínum að þá ertu komin á tapleiðina. Alveg eins og gellan sem hættir að moka vegna þess að krafturinn innra með henni býður ekki upp á meiri trú á sjálfri sér.
Auðvelt er að finna til reiði vegna þess að snjórinn ber mann ofurliði. Vanmáttur. Sem að mörgu leyti vill draga fólk niður og það hættir við drauminn. Þráin eftir gleðitilfinningunni virðist þurrkast út. Svo er líka kalt að standa þarna með sárt ennið og rándýra skóflu ef krafturinn til að sveifla henni er týndur
En hvað þurfum við?
Við þurfum hvort annað. Til að lyfta hvort öðru upp úr vonleysisþokunni. Það kveikir á hugrekkinu. Huggandi hvatningin er eins og næringarsprauta beint inn í kjarna manns. Þar sem hugrekkið fæðist. Þrautseigjan sem þarf til, kemur ekki vegna þess að einhver segi manni hvað maður á að gera. Ástæðan er til staðar. Ábyrgðartilfinningin verður til þess að maður afsakar enga vantrú á sjálfum sér. Það er enginn sem tekur trú þína á þér í burtu ef þú samþykkir ekki eitrið sem aðrir henda í þig. Dómararöddin sem vill bara tæra þig upp og klippa burtu kærleikann sem þú þarft að hafa handa sjálfum þér, lýgur. Og er þar af leiðandi rekin. Þú ræður því víst. Kveðjum hið óviðurkennda, en vinsæla tilfinninga-stjórntæki.
Getur þú hætt að benda á þig? Veistu hvort þú gerir það?
Ef þú veist að þú ert að gera allt sem þú getur til að ná markmiðinu, getur enginn bent á þig og sagt þú gast þetta ekki“. Það að geta samviskusamlega sagt „Ég gerði allt sem ég gat, vitandi hvað ég hafði fram að færa í allt saman,“ gefur góða tilfinningu. Skömm er gagnslaus.
Heilinn er verkfæri – búnaður. Hans helsta verkefni er að halda okkur á lífi. Hann kemur með hugmyndir sem ýta allar undir að við tökum sem minnsta áhættu. Líkt og þegar við bjuggum í hellum. Ef við tökum ákvarðanir í varnarstöðu, er kjarni eðlis þeirra miðaður við að komast sem best af. Hindri þær þá að maður komist á staðinn sem nauðsynlegur er, til að ná árangri, nær maður að brjótast í gegn? Að sjá drauminn sinn verða að veruleika?
Áhrifagirni öryggisfíkilsins tekur völdin
Þegar öllu er á botninn hvolft er það alltaf ég sem ræð hvernig ég spila úr spilunum mínum. Það er ég sem kveiki á sigurstillingunni. Ætla ég að umfaðma snjóinn og allt sem honum fylgir eða ætla ég að hanga inni þangað til snjórinn fer?
Að ég gefi sjálfstæði mitt ekki upp á bátinn þrátt fyrir tímabundið kraftleysi þýðir að draumurinn er ekki horfinn. Núið er ennþá núna. Ákvörðunin er mín. Margir hafa risið uppúr ömurlegum hremmingum en eru samt hamingjusöm í hjartanu. Þau þekkja leiðina. Án silfurskeiða. Ekki halda að ég bíði eftir henni. Ég hef eiginleikann til að láta fyrri atburði verkefna sem tókust ekki, trufla hvar ég er núna.
Ég, get ákveðið. Að búa mér til minn eigin rússíbana sem keyrir mig í gegnum framkvæmdaráætlunina og ég býð öllum með sem vilja hafa hvetjandi áhrif. Þessi rússíbani er allt of stór og hraður fyrir einn gamlan vin minn líka. Öryggisfíkillinn. Ég treysti innsæinu og áætla ekki að Guð bjargi mér úr einhverju flóði, með því að láta höfin skilja sig svo ég geti labbað á þurrum sjávarbotninum með sígarettu í kjaftinum, alla leið upp að strönd. Ævintýri með allskonar sveiflum er framundan, en ég kemst á áfangastað. Ég held áfram. Orðið vandræðalegt er strokað út. Gömlum afsökunum, skilyrðislaust hent út.
Ekki hef ég tölu á því hversu oft ég hef þurft að sannfæra mig um að núna sé ekki rétti tíminn fyrir mínar þrár. Ég er nokkuð viss um að ég sé ekki ein um það. En það endar hér. Ég og þú eigum rétt. Rétt á að klára planið og framfylgja ákvörðuninni. Klára drauminn. Þeir þurfa ekki að rætast á sömu nóttinni
Og sýnin er þessi
Ég keyri af stað. Snjórinn er löngu farinn frá bílnum. Snjórinn þjónar mér nú sem minnisvarði um sigurinn sem ég upplifi. Ég þurfti ekki að gera þetta allt ein. Eins og dómararöddin reyndi að sannfæra mig um. Ég horfi blíðlega til krakkana, sem leika sér loksins glaðir á sleðanum þegar ég keyri framhjá garðinum mínum. Sannleikur augnabliks míns og fylling hjarta míns leiðir mig svo áfram næstu skref.
Soffía H.