fbpx
Þriðjudagur, nóvember 5, 2024
target="_blank"
HeimUmræðanSól og sæla?

Sól og sæla?

Anna Sigríður Sigurðardóttir skrifar

Mikið getum við Hafn­firð­ingar glaðst yfir því að sólin sé loks farin að láta sjá sig. Já og reyndar ekki bara við Hafnfirðingar heldur aðrir lands­menn sem fá að njóta hennar eftir langan og veður­farslega leiðinlegan vetur.

Það er þó því miður ekki hægt að njóta góða veðursins hérna innanbæjar alveg til fulls, sérstaklega ekki fyrir þá sem eru viðkvæmir í öndunar­færunum, því fylgi­fiskur hinnar dásamlegu sólar og þess þurrks sem hún færir okkur er ótæpilegt magn af svifryki. Þetta svif­ryk kemur þó ekki svífandi til okkar af himnum ofan á einhvern dularfullan hátt og það sprettur heldur ekki út úr nagladekkjum, heldur á sér mjög augljósar ástæður, það kemur af skít­ugum og illa þrifnum götum.

Ímyndum okkur að við búum með sandkassa við hliðina á útidyrunum okkar. Í hvert sinn sem við göngum inn í hús þá berum við með okkur sand úr sandkassanum. Ímyndum okkur svo að við eigum engan kúst og engar græjur til að skúra gólfið. Svona heldur þetta áfram í dágóðan tíma, sandurinn berst inn, við berum hann um allt hús, hann þyrlast upp þegar börnin hlaupa í gegnum sandhrúgurnar og svona held­ur þetta áfram þar til að þessa örfáu daga á ári sem við fáum lánaðan sparikústinn og spariskúringagræjurnar þá náum við að sópa sandinum upp og binda rykið með blautri tusku.

En kannski af því að fátt er dularfullt við ryk og sand sem þyrlast upp af götum ætti ekki að vera flókið að minnka þann skaða sem af þeim óþrifnaði hlýst. Það eina sem þarf eru góðar sópunar­græjur og vatn (sem vill svo til að á þessu landi eigum við nóg af). Svona til samanburðar þá hef ég sjálf búið í þremur spænskum borgum og þar voru götur þrifnar mörgum sinnum í viku, ef ekki bara daglega. Ég efast ekki um að það má gera miklu betur í þessum málum hér í Hafnarfirði sem og víðar um land.

Nú veit ég að til eru tæki sem eru gerð til að sópa og þvo göturnar. En þar sem þessi tæki virðast bara vera viðruð einstaka sinnum og oft að því virðist einungis til að sópa rykinu til hliðanna þar sem það smám saman þyrlast síðan aftur upp með tímanum þá heldur sandur og ryk áfram að þyrlast upp og valda börnum jafnt sem fullorðnum óþægindum og spillir þar af leiðandi gleðinni sem fylgir sólinni góðu og heilbrigðri útiveru.

Hvernig væri að viðra þær græjur sem eru til í bænum til að sópa og bleyta götur aðeins oftar? Og næsta spurning, af hverju er það ekki gert?

Anna Sigríður Sigurðardóttir
skipar 3. sæti á lista Vinstri Grænna í Hafnarfirði.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2