Kennsluhættir nútímans kalla á fjölbreytileika, samstöðu og samvinnu. Rannsóknir benda til að allt skólastarf verður skilvirkara og betra með þessa þætti að leiðarljósi.
Hér í Hafnarfirði eru góðir leik- og grunnskólar sem geta orðið enn betri með samstilltu átaki allra aðila. Við í Framsókn og óháðum viljum efla samstarfið og samvinnuna milli skólastiga/skólafólks. Hafnarfjörður er eitt skólasamfélag sem skiptist upp í nokkur hverfi. Eins og staðan er í dag þá erum við ekki að læra nógu mikið af hvert öðru.
verfasamfélögin og skólarnir innan hverfanna verða þá eins og eyland. Við þurfum að nýta betur mannauðinn sem starfar innan skólanna til að efla okkur áfram í starfi. Mikilvægt að staldra við og skoða á hvaða vegferð við erum. Hvert erum við að stefna?
Mörg verkefni sem hafa tekist vel eins og læsisverkefnið í leik- og grunnskólum, spjaldtölvuinnleiðingin sem farin er af stað, greining á álagsþáttum hjá grunnskólakennurum svo fátt eitt sé nefnt. En það er ekki alltaf hægt að bæta bara við verkefnum, við þurfum einnig að skoða heildarmyndina, hægja aðeins á og átta okkur á því hvað skiptir raunverulegu máli. En það er að öllum líði vel, nemendum og starfsmönnum þarf að líða vel innan leik- og grunnskóla og foreldrar þurfa að vera sáttir með skólana.
Náum góðri og öflugri samstöðu um skólana. Drögum úr álagsþáttum og einbeitum okkur að því að nemendum líði vel. Vellíðan barna er forsenda fyrir því að barnið geti lært, taki framförum og eflist og þroskist sem einstaklingur.
Saman getum við í Hafnarfirði verið með öflugustu leik- og grunnskóla landsins. Við í Framsókn og óháðum viljum að Hafnarfjörður setji sér það markmið að við verðum í fremstu röð skólasamfélaga landsins. Við erum sterkari saman.
Valdimar Víðisson, skólastjóri Öldutúnsskóla
og skipar 2. sætið hjá Framsókn og óháðum.