Þegar fór að hausta tókum við íbúarnir í raðhúsalengjunum tveim sem deila göngustíg eftir því að peran í eina ljósastaurnum hér á göngustígnum var farin. Ég hafði samband við bæinn og bað þau um að skipta um peru líkt og bærinn hafði gert frá því að húsin voru byggð í kringum 1980. Bjuggumst við íbúarnir við því að þetta yrði auðsótt mál líkt og áður en það var nú ekki og hófst nú stóra ljósastauramálið.
Fyrstu svör frá bænum voru á þá leið að staurinn væri innan lóðamarka og því ættum við að sjá um að skipta um peru.
Var bænum bent á að þeir hefðu séð um þetta alla tíð. Alveg sama, staurinn er innan lóðamarka og því ættum við að sjá um peruskiptin.
Var bænum bent á að það væri ekki jafnræði á milli íbúa götunnar þar sem sumir hafa ljósastaur í sinni götu sem bærinn sér um en aðrir þurfa greinilega að sjá um staurana sjálfir. Þau rök höfðu ekki heldur áhrif.
Var bænum þá bent á það að þeir greiddu rafmagn af staurnum og sjá því um reksturinn af honum. Alveg sama, það hefðu verið mistök á sínum tíma (um 1980) og við eigum að sjá um peruskiptin.
Bærinn bauð okkur hins vegar um að leiðrétta þessi mistök og tengja rafmagnið í staurnum inn á okkur. Ég spurði þá á hvern okkur íbúanna ætti að tengja þar sem þetta eru raðhús og engin sameign en þar hefur verið fátt um svör.
Bænum hefur einnig verið bent á að það séu tvær raðhúsalengjur sem samnýti þennan eina ljósastaur, eigum við þá að skiptast á að hafa hann tengdan inn á okkur? Ljósastaurinn er að vísu nær annarri lengjunni og því kannski réttast að sú lengja borgi þetta? Einnig er ljósastaurinn beint fyrir framan eina íbúðina í þessari lengju og því kannski langréttast að hann borgi þetta? Að minnsta kosti á bærinn greinilega ekki að borga þetta þrátt fyrir að hann hafi gert það í næstum 40 ár og þrátt fyrir að bærinn sjái um að greiða rafmagnið.
Í tölvupósti þann 15. október var lokasvarið að lögmaður bæjarins yrði beðinn um álit á þessu en það hefur ekki borist okkur ennþá næstum tveim mánuðum síðar.
Einnig fékk bæjarstjórinn tölvupóst þann 27. október um stóra ljósastauramálið en hún hefur heldur ekki svarað þeim pósti.
Að eyða tíma starfsmanna bæjarins og lögmanns og jafnvel að aftengja ljósastaurinn og tengja hann svo aftur inn á einhverja íbúa raðhúsanna (eða alla) er greinilega betri ráðstöfun á fjármunum bæjarins en að skipta um eina peru.
Geir Gígja, íbúi í Hvammahverfinu.