Í bæjarstjórn Hafnarfjarðar sitja 11 kjörnir fulltrúar. Alla jafna mæta 11 kjörnir fulltrúar á fund bæjarstjórnar. Það eru ekki alltaf sömu 11 fulltrúarnir því sú staða getur eðlilega komið upp að aðalfulltrúi sé forfallaður en þá mætir varamaður í hans stað.
Á síðasta bæjarstjórnarfundi voru hins vegar bara mættir 10 fulltrúar til fundar. Elstu menn muna varla til þess að slíkt hafi gerst áður. Ástæðan var sú að einungis annar fulltrúi Bjartrar framtíðar var mættur. Einar Birkir Einarsson mætti ekki á fundinn af einhverjum ástæðum en hvorugur varabæjarfulltrúanna, Borghildur Sturludóttir eða Pétur Óskarsson, var heldur mættur til fundarins. Nú kann þetta allt að eiga sér eðlilegar skýringar en þessi staða á síðasta bæjarstjórnarfundi verður hins vegar ekki skoðuð nema í ljósi þess að á fundinum var tekin sú umdeilda ákvörðun að hækka laun bæjarfulltrúa um rúmlega 44%.
Starfshópur enn að störfum
Ákvörðunin var tekin í miklum ágreiningi í bæjarstjórn þar sem minnihlutinn greiddi atkvæði gegn því að þessi hækkun tæki gildi. Minnihlutinn taldi m.a. fullkomlega óþarft að drífa þessa ákvörðun í gegnum bæjarstjórn á meðan starfshópur, sem hefur það hlutverk að endurskoða starfsumhverfi og kjör bæjarfulltrúa, væri enn að störfum og einungis nokkrar vikur í að hann ætti að skila niðurstöðum. Formaður starfshópsins er einmitt Einar Birkir Einarsson, bæjarfulltrúi Bjartrar framtíðar.
Bara Sjálfstæðisflokkur og Guðlaug Kristjánsdóttir?
Fjarvera aðal- og varabæjarfulltrúa Bjartrar framtíðar þýðir að þessi umdeilda ákvörðun um launahækkun bæjarfulltrúa upp á rúmlega 44%, hefur eingöngu 6 atkvæði meirihlutans á bakvið sig á móti 4 atkvæðum minnihluta Samfylkingar og VG.
Í ljósi þess að eingöngu einn af fjórum aðal- og varafulltrúum Bjartrar framtíðar tók þátt í þessari stóru og umdeildu ákvörðun, finnst mér sú spurning liggja í loftinu hvort Björt framtíð styður 44% launahækkun bæjarfulltrúanna eða hvort hér sé eingöngu um að ræða ákvörðun Sjálfstæðisflokksins og Guðlaugar Kristjánsdóttur?
Árni Rúnar Þorvaldsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í fjölskylduráði.
Greinin birtist í bæjarblaðinu Fjarðarfréttum 2. febrúar 2017