Landsnet áformar byggingu 220 kV raflínu, Suðurnesjalínu 2 milli Hafnarfjarðar og Rauðamels í landi Grindavíkur. Línan hefur verið lengi í undirbúningi en nauðsynlegt er að ráðast í framkvæmdir til að bæta afhendingaröryggi raforku á svæðinu og auka flutningsgetu raforkukerfisins milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja. Í dag er ein 132 kV raflína sem sér um flutning til og frá Suðurnesjum, Suðurnesjalína 1, sem liggur frá Hamranesi í Hafnarfirði að Fitjum í Reykjanesbæ. Þar sem Suðurnesjalína 1 er eina línan sem flytur raforku til og frá Suðurnesjum, eru ekki til staðar aðrar flutningsleiðir ef hún fer úr rekstri. Áhrif þess að Suðurnesjalína 1 fari skyndilega úr rekstri er nær undantekningarlaust straumleysi á Suðurnesjum með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á heimili og fyrirtæki. Með tilkomu nýrrar línu, Suðurnesjalínu 2 verður flutningskerfið sveigjanlegra í rekstri og eykur afhendingaröryggi til muna.
Landsnet leggur til: 32 km loftlínu um Hrauntungur og 1,4 km jarðstreng í Hafnarfirði
Við erum stödd á mikilvægum tímamótum í undirbúningi framkvæmdarinnar þar sem vinnu við gerð frummatsskýrslu vegna Suðurnesjalínu 2 er lokið og skýrslan hefur verið lögð fram til kynningar. Í frummatsskýrslunni er fyrirhugaðri framkvæmd lýst, lagt mat á þá umhverfisþætti sem tilgreindir voru í matsáætlun og lagðar til mótvægisaðgerðir til að draga úr áhrifum framkvæmdarinnar. Aðalvalkostur Landsnets felst í lagningu 32 km loftlínu um Hrauntungur og 1,4 km jarðstreng í Hafnarfirði. Auk aðalvalkostar eru metin umhverfisáhrif fimm valkosta í skýrslunni bæði loftlínu og jarðstrengskosta.
Samráð og samtal
Í undirbúningsferlinu hefur verið lögð áhersla á samráð og samtal við hagsmunaaðila en stofnað var verkefnaráð sem fundað hefur reglulega, haldnir hafa verið upplýsingafundir fyrir landeigendur, sveitarstjórnir ofl. Fjölmargar ábendingar og athugasemdir hafa komið fram á þessum fundum sem við höfum brugðist við og má sjá nánar um það ferli á vefsíðu Landsnets undir framkvæmdir, Hafnarfjörður – Suðurnes
Má bjóða þér í spjall við okkur?
Við verðum með opið hús í Álfagerði í Vogum þriðjudaginn 11. júní og á Ásvöllum miðvikudaginn 12. júní á báðum stöðum kl. 17-19 þar sem hægt er að fá allar upplýsingar um fyrirhugaða framkvæmd vegna Suðurnesjalínu 2. Á staðnum verða sérfræðingar sem stóðu að gerð frummatsskýrslunnar en skýrslan er í kynningu til 18. júlí. Það geta allir komið með athugasemdir um það sem betur má fara eða lýst ánægju sinni með fyrirhugaða framkvæmd.
Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast til Skipulagsstofnunar, Borgartúni 7b, 105 Reykjavík eða með tölvupósti á skipulag@skipulag.is
Skýrsluna og viðauka má finna á vefsíðu Suðurnesjalínu 2 á landsnet.is
Elín Sigríður Óladóttir samráðsfulltrúi Landsnets.