fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirPólitíkSvar við bréfi Helgu

Svar við bréfi Helgu

Margrét Gauja Magnúsdóttir skrifar

Í síðasta tölublaði Fjarðafrétta birtist áhugaverð grein eftir Helgu Ingólfsdóttur bæjarfulltrúa undir fyrirsögninni „Bjóða þarf leikskóladvöl eða dagvistun frá 12 mánaða aldri“. Greinin er góð og gæti ég ekki verið meira sammála bæjarfulltrúanum um bráðnauðsyn þess að bjóða upp á leikskólapláss um leið og fæðingarorlofi lýkur. Þetta ,,millibils“ ástand sem getur varað hátt í 2 ár fyrir marga, fer eftir hvenær ársins barnið er fætt, getur verið ansi dýrkeypt, ekki bara fjárhagslega heldur einnig vinnulega, já eða námslega.

Mér finnst samt furðulegt að sjá þessi skrif bæjarfulltrúans í ljósi þess að sá meirihluti sem hún tilheyrir  og er við völd hér í Hafnarfirði hefur lokað  fjórum leikskólaúrræðum á tveimur árum, Bjarma ungbarnaleikskóla, Brekkuhvammi (Kató) sem sinnti börnum úr Suðurbænum þar sem hvað mest þörf er á leikskólaplássum, útideildinni við Kaldársel sem hefur unnið til verðlauna fyrir starf sitt og fimm ára deild sem starfrækt var við Hvaleyrarskóla.

Það að börn allt niður í 18 mánaða komist á leikskóla er engin nýlunda í Hafnarfirði. Þegar vel hefur gengið og árgangar með minna móti hefur það markmið oft náðst og jafnvel allt niður í 17 mánaða aldur. En til að geta lækkað inntökualdur á leikskóla þarf að nýta öll pláss sem leikskólarnir hafa upp á að bjóða og byggja leikskóla. Ekki loka leikskólum og deildum. Það segir sig svolítið sjálft.

Það er ekki hægt að skreyta sig rósrauðum klæðum korter í kosningar og koma fram með slíkar staðhæfingar en framkvæma svo eitthvað allt annað.

Ef bæjarfulltrúinn væri samkvæm sjálfum sér væri fyrsta skref hennar að draga til baka lokun Kató, opna aftur ungbarnaleikskóla í bænum og endurreisa leikskóladeildina á Kaldárseli og leggja fram markvissa 3ja ára áætlun um það hvernig hún ætlar að ná markmiðum sínum þ.e að bjóða öllum börnum bæjarins, frá 12 mánaða aldri, upp á leikskólapláss.

Höfundur er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2