Það þarf að taka til hendinni í Hafnarfirði í fjölmörgum málaflokkum. Sum mikilvæg verkefni hafa verið látin reka á reiðanum og ekki tekist að fá farsæla niðurstöðu í þau. Við jafnaðarmenn munum ganga í verkin að afloknum kosningum 14. maí næstkomandi, fáum við góðan stuðning frá bæjarbúum. Við erum reiðubúin til að taka við stjórn bæjarins.
Þrjú dæmi um verkefni sem Samfylkingin í góðu samstarfi við bæjarbúa og aðra mun taka á og leysa.
Átak í íbúðamálum
Við ætlum að sjá umtalsverða fólksfjölgun í Hafnarfirði á komandi kjörtímabili, verður mikill fjöldi íbúðalóða á boðstólum fyrir einstaklinga, verktaka og hópa. Á fyrsta heila ári nýs meirihluta jafnaðarmanna og samstarfsflokka, árið 2023, munum við sjá fólksfjölgun sem telur að lágmarki þúsund íbúa, sem er um 3% aukning íbúa.
Íbúðaformið verður fjölbreytt, einbýli og fjölbýli og allt þar í milli. Við ætlum að tryggja stóraukningu í valkostum varðandi félagslegt íbúðaform, sem ekki síst hentar ungu fólki. Búseti, hlutdeildaríbúðir, Bjarg og önnur óhagnaðardrifin samtök fá nauðsynlegan stuðning Hafnarfjarðarbæjar til þeirrar uppbyggingar. Við munum að minnsta kosti tvöfalda kaup bæjarins á félagslegum íbúðum fyrir tekjulægri og í brýnni þörf.
Bláfjalla- og Flóttamannavegur
Tvö stórmál í samgöngumálum, sem hafa verið í óvissu og þarf að taka á hið fyrsta.
Við munum opna á nýjan leik Bláfjallaveg og knýja á um nauðsynlegar endurbætur á honum af hálfu veghaldarans, Vegagerðar ríkisins.
Við munum ekki undir nokkrum kringumstæðum sættast á lokun Flóttamannavegar af hálfu meirihluta sjálfstæðismanna í Garðabæ, eins og þeir hafa hótað. Heldur skal endurvakin vinna við mótun og gerð raunverulegs Ofanbyggðarvegar austan og ofan þéttbýlis á höfuðborgarsvæðinu. Það mun létta til muna á umferð á Reykjanesbraut og Hafnarfjarðarvegi. Ofanbyggðarvegur hefur verið á dagskrá áratugum saman. Nú er nauðsynlegt að sjá þau áform raungerast.
Þetta eru aðeins sýnishorn af raunverulegum verkefnum sem þarf að fara í með festu og ákveðni á nýju kjörtímabili.
Við jafnaðarmenn erum til í þau verk.
Guðmundur Árni Stefánsson,
oddviti Samfylkingarinnar, jafnaðarmannaflokks Íslands.