fbpx
Sunnudagur, nóvember 17, 2024
target="_blank"
HeimFréttirPólitíkÞegar keisarinn í Hafnarfirði klæddi sig úr hverri spjör

Þegar keisarinn í Hafnarfirði klæddi sig úr hverri spjör

Undanfarið hefur okkur í Viðreisn liðið eins og litla drengnum í sögu H. C. Andersen um nýju fötin keisarans og reynt að benda á að stjórnsýslan sé alls­ber. Stundum finnst okkur eins og það sé verið að gera grín að okkur þegar við hrópum á torgum kröfuna um gegnsæja stjórnsýslu. Svarið við þeirri kröfu hefur verið í formi engrar stjórnsýslu því engin stjórnsýsla er svo gegnsæ að hún er í raun ósýnileg.

Að krefjast sáttar en vinna að sund­rungu eru vinnubrögð keisarans í Hafnar­firði með því að tengja framhjá minni­hluta og þar með þverbrjóta lýðræðið. Að útvista ákvörðunum og ábyrgð á skattfé borgaranna til þröngs hóps hagsmunaaðila er leikkerfið sem leikið er eftir.
Í sumarfríi er boðað til fundar með stuttum fyrirvara. Vitað er að á þeim tíma­punkti eru einungis þeir bæjar­full­trúar minnihlutans sem enga reynslu hafa af klækjabrögðum stjórnmálanna á land­inu og því rétti tíminn til að læða nokk­urra hundraða milljóna verkefni í gegn þegjandi og hljóðalaust. Það tókst þó ekki!

Aðalgæinn í partýinu

Það er þó nokkur munur á því að reka bæjarfélag og að reka eigið fyrirtæki. Við sem valin höfum verið til þess að gæta hagsmuna bæjarsjóðs þurfum að lúta ströngum lögum og reglum um útdeilingu á skattfé Hafnfirðinga. Fyrr á árinu varð þverpólitísk sátt um að til framtíðar skyldi Hafnarfjarðarbær byggja íþróttamannvirki og eiga að fullu. Ein af röksemdunum fyrir því var sú að það væri slæmt til lengri tíma litið að gefa íþróttafélögum tækifæri til þess að skuldsetja sig um of með því veðrými sem fasteignir geta gefið. Íþróttafélög eiga ekki að vera fast­eignafélög. Þau eiga að einbeita sér að kjarnastarfsemi sinni.

Meirihlutinn tók mjög vel í þá hugmynd Viðreisnar að skoða þá verkferla sem snúa að uppbyggingu íþróttamannvirkja og taka rekstur þeirra til gagngerrar endurskoðunar þannig að gagnsæi, jafn­ræði og sanngirni ráði för. Við viljum að framkvæmdirnar við Kaplakrika falli und­ir nýja vandaða verkferla. Meirihlut­inn er sammála því að heppilegast væri að svo væri en það gangi bara ekki upp. Þetta er eins og með fulla gæjann sem ætlar að hætta að drekka en ekki fyrr en eftir helgi þegar partýið er búið Það er nefnilega svo gaman að vera aðalgæinn í partíinu sem splæsir á línuna fyrir annarra fé.

Leikkerfið 006

Ef bæjarstjórn væri 11 manna knatt­spyrnulið á HM þá mætti ímynda sér að við í Viðreisn værum sókndjarfur bak­vörður. Á undirbúningstímabilinu var sett upp varkárt leikkerfi sem allir leik­menn voru sáttir við og hver og einn var með sitt hlutverk á hreinu. Korteri fyrir leik fundar sóknarlína liðsins og ákveður að fara úr leikkerfinu 4 4 2 yfir í leikkerfið 0 0 6, enginn í vörn, enginn á miðjunni, bara sex sóknarmenn og látum vörnina vita af breyttu leikkerfi og leikstað að leik loknum. Þegar varnar­línan krefst skýringa á 180 gráðu breyt­ingu á leikplani reiðast sóknarmenn liðsins og væna varnarmennina um áhuga­leysi, neikvæðni og grafa upp söguleg dæmi um jafn ömurlegar ákvarð­anir sem skynsamleg rök í málinu.

Eitt af þeim hlutverkum sem við í Við­reisn höfum tekið að okkur að afloknum kosningum er gæðaeftirlit með stjórn­sýslunni. Við erum hópur fólks sem teljum að vönduð stjórnsýsla geti af sér góðar ákvarðanir, ábyrga fjármálastjórn, jafnræði milli ólíkra hópa samfélagsins og sanngirni. Af þeim sökum spyrnum við fast við fótum í „stóra knatt­hús­málinu“, ekki vegna þess að við séum á móti uppbyggingu íþróttamannvirkja heldur vegna vanhugsaðra vinnubragða sem skapa sundrungu, óánægju og van­traust.

Jón Ingi Hákonarson bæjarfulltrúi Viðreisnar. 
Vaka Ágústsdóttir varabæjarfulltrúi Viðreisnar.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2