Eins og svo mörgum Hafnfirðingum finnst okkur fátt skemmtilegra en að labba um Hafnarfjörð á góðviðrisdegi. Hvort sem það er með ís í hönd á heitum sumardegi eða kakóbolla á fallegum vetrardegi. Við viljum efla miðbæjarstemninguna svo við getum jafnt verið að „slagga“ á Strandgötunni og „njódda“ á Thorsplani. Með tiltölulega einföldum og ódýrum hætti er hægt að blása lífi í þetta dýrmæta svæði okkar.
„Thorsplan allt árið“ felur í sér að Thorsplanið sé eftirsóknarvert og lifandi allt árið, ekki bara á hátíðisdögum og á aðventunni. Við sjáum fyrir okkur að á sumrin væri hægt að setja skeljasand á planið, bekki og borð þar sem fólk á öllum aldri kæmi saman og nyti alls þess sem miðbær Hafnarfjarðar býður uppá. Á haustin væri hægt að setja upp bændamarkað, þar sem hægt væri að kaupa allskyns afurðir. Og á veturna yrði útbúið skautasvell líkt og eldri Hafnfirðingar þekkja frá tjörninni.
Við í Viðreisn viljum auka lífsgæði fólks og á sama tíma draga fjölskyldur og vini, nágranna og félaga, að hjarta bæjarins. „Thorsplan allt árið“ væri leið til að gefa Hafnfirðingum öllum færi á að njóta og skemmta sér saman og um leið efla verslun og þjónustu á svæðinu.
Daði Lárusson
skipar 11. sætið á lista Viðreisnar í Hafnarfirði
Vaka Ágústsdóttir
skipar 2. sætið á lista Viðreisnar í Hafnarfirði