fbpx
Mánudagur, janúar 6, 2025
HeimFréttirPólitíkÞurfum að gera betur í skipulagsmálum

Þurfum að gera betur í skipulagsmálum

Sigurður P. Sigmundsson skrifar

Alkunna er að Hafnarfjörður hefur verið með fæstar íbúðir sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í byggingu á kjörtímabilinu sem er að líða enda hefur bæjarbúum fækkað undanfarin misseri. Bæjarstjórnarmeirihluti sjálfstæðismanna og framsóknar veit þetta og hefur brugðist við með því að hraða áformum um ný byggingarsvæði og að þétta byggð. Gott og vel,  en þá bregður svo við að hlaða á niður miklu byggingarmagni sem víðast. Hamranesið er komið vel á veg og þar rís upp hver 5-7 hæða blokkin á fætur annarri. Lóðarhafar hafa flestir komist upp með það að fara fram úr því nýtingarhlutfalli lóða sem lagt var upp með í byggingarskilmálum fyrir hverfið. Það sama stefnir í hvað varðar reitinn Hraun vestur, Gjótur, en þar er fyrirhugað að byggja um 490 íbúðir sem jafngildir um 1.400 íbúum á þessum litla reit. Í upphaflegum teikningum var meira að segja gert ráð fyrir 10 hæða byggingum. Hver bað um þetta mikla byggingarmagn – voru það bæjarbúar eða voru það lóðarhafar sem vildu hámarka hagnað sinn? Meirihlutinn hefur aldrei viljað svara þessu að öðru leyti en því að þetta væri í samræmi við svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins sem legði áherslu á að þétta byggð meðfram fyrirhugaðri Borgarlínu. Sú skýring á reyndar rétt á sér að hluta til en fyrr má nú fyrr vera?

Hvernig viljum við að byggð þróist í Hafnarfirði? Þetta er stórmál í mínum huga og því mikilvægt að vanda vel til verka þegar kemur að rammaskipulagi, aðalskipulagi og deiliskipulagi. Með miklu byggingarmagni á einstökum svæðum er verið að setja mikinn þrýsting á innviði s.s. fjölda bílastæða, lagna- og gatnakerfi, leikskóla- og grunnskóla svo eitthvað sé nefnt. Við verðum, að mínu áliti,  í auknum mæli að taka tillit til þarfa og upplifunar íbúa. Verðum m.a. að taka meira mið af niðurstöðum mælinga á vindstrengjum, skuggavarpi og hljóðvist. Þá  verðum við að gera ráð fyrir hæfilegum útivistarsvæðum í stað þess að malbika yfir nánast allt sem grænt er. Bæjaryfirvöldum ber skylda til þess að hámarka lífsgæði íbúa eins og frekast er unnt. Við í minnihlutanum í skipulags- og byggingarráði höfum margsinnis bent á þessi atriði en því miður allt of oft talað fyrir daufum eyrum. Það er kominn tími á breytingar, tímabært að skerpa á framtíðarsýn í uppbyggingu Hafnarfjarðar. Við þurfum m.a. að hafa meira samráð við íbúana. Ekki láta slag standa í þeirri von að kvartanir og kærur berist ekki. Hugsið ykkur að í greinargerð um endurskipulag vesturbæjarins var búin að vera í marga mánuði setning þess efnis að hugsanlega þyrfti að flytja eða rífa allt að 17 hús við Reykjavíkurveg til að koma Borgarlínunni fyrir. Löngu seinna segir bæjarstjórinn að þetta hafi verið misskilningur. Varla hafa arkitektarnir sett þetta inn upp á sitt einsdæmi. Er ekki bara best að meirihlutinn í bæjarstjórn taki ábyrgð á sínum vinnubrögðum.

Sigurður P. Sigmundsson,
frambjóðandi Bæjarlistans

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

Gleðilegt nýtt ár

Yfirkeyrsla

Beina brautin

H2