fbpx
Þriðjudagur, desember 17, 2024
target="_blank"
HeimFréttirSkipulagsmálUm deiliskipulag Vesturbæjar

Um deiliskipulag Vesturbæjar

Guðlaug Svala Kristjánsdóttir skrifar:

Deiliskipulag fyrir Vesturbæinn hefur verið í undirbúningi í talsverðan tíma og líður senn að því að tillaga að skipulaginu líti dagsins ljós. Vinna við húsaskráningu og yfirferð yfir lóðir, byggðar og óbyggðar, hefur verið í kynningu að undanförnu og hafa íbúar hverfisins komið kröftuglega inn í það samtal. Erindi hafa borist okkur bæjarfulltrúunum um einstök svæði, svo sem reitinn á Norðurbraut og umræða á samfélagsmiðlum er komin á fleygiferð. Það er bæði gott og nauðsynlegt, því íbúar gegna lykilhlutverki í mótun bæjarskipulagsins.

Grunnvinnan við deiliskipulag Vesturbæjar er að mörgu leyti mjög góð og marga góða punkta þar að finna. Hluti svæðisins fellur undir hugtakið verndarsvæði í byggð, sem er áhugaverð hugmyndafræði og getur í fyllingu tímans orðið til að auka gæði og þar með verðmæti svæðisins til muna.

Vesturbærinn er gamalt, gróið – og rótgróið – hverfi sem ber meðal annars svip af aðferðum frumbyggja bæjarins við uppbyggingu hans; að fylgja landslaginu og láta húsin laga sig að umhverfinu en ekki öfugt. Því er kannski ekki að undra að íbúum bregði í brún við að sjá uppdrætti þar sem tillögur eru um húsbyggingar á fjölda auðra svæða, þar sem byggð er jafnvel talsvert þétt fyrir.

Skipulagsmálin eru oft umdeild, ekki síst hér í Hafnarfirði, en ef góðar upplýsingar eru veittar og nægur tími gefinn til uppbyggilegrar umræðu þar sem raddir allra hagsmunaaðila fá að heyrast ættum við að geta lent jafn mikilvægu ferli og deiliskipulag gróins hverfis er á farsælan hátt.

Ég vona að okkur í bæjarstjórninni gangi vel á næstunni að taka samtalið við íbúa, sem sannarlega láta sig málið varða, og ræða okkur niður á góða niðurstöðu sem skapar sátt. Það væri mikils virði.

Guðlaug Svala Kristjánsdóttir,
bæjarfulltrúi Bæjarlistans

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2