fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimUmræðanUm hvað verður kosið í haust?

Um hvað verður kosið í haust?

Þórunn Sveinbjarnardóttir skrifar

Síðast liðin átta ár hafa þrjár ríkisstjórnir haft tækifæri til þess að hrinda stefnumálum sínum í framkvæmd. Þar hefur af augljósum ástæðum lítið borið á ákvörðunum í anda jafnaðarstefnunnar. Bilið á milli hinna ríku og þeirra fátæku hefur breikkað og þótt meðaltöl sýni vöxt kaupmáttar launafólks þá hafa ekki allir notið uppgangsins með sambærilegum hætti. Hér skulu rakin þrjú lykilmál í stefnu Samfylkingarinnar  sem varða beint betri lífskjör og lífsgæði almennings:

Samfylkingin mun setja hag fjölskyldunnar í forgang á nýju kjörtímabili. Það gerum við m.a. með því að hækka tekjumörkin sem skerðingar barnabóta miðast við. Það er ótækt að upphæð barnabóta byrji að skerðast hjá foreldrum sem eru á lágmarkslaunum. Fjölskyldur með meðaltekjur eiga einnig að fá greiddar barnabætur. Þannig ætlar Samfylkingin að hefja endurreisn barnabótakerfisins og bæta lífsgæði barnafjölskyldna.

Kórónufaraldurinn hefur afhjúpað veikleikana í velferðarkerfinu og varpað skýru ljósi á stöðu heilsugæslu og sjúkrahúsa. Ekki síst á stöðu þjóðarsjúkrahússins okkar.  Uppbygging nýs Landspítala gengur vel en sama verður ekki sagt um stöðu ýmissa deilda innan hans. Í eitt og hálft ár hafa heilbrigðisstéttir á spítalanum búið við stöðugt og mikið álag vegna faraldursins. Það bætist ofan á króníska undirmönnun á lykildeildum, s.s. bráðamóttöku og gjörgæslu. Samfylkingin telur það forgangsmál að laða fleiri til starfa í heilbrigðiskerfinu og búa þannig að heilbrigðisstéttum að fólki finnist eftirsóknarvert að starfa hér á landi. Betri fjármögnun heilbrigðiskerfisins bætir lífsgæði okkar allra.

Alvöru aðgerðir í loftslagsmálum eru ekki aðeins lífsnauðsynlegar heldur munu þær grundvalla hagvöxt og lífskjör okkar til framtíðar. Samfylkingin vill draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 60% fyrir 2030. Til þess þarf markvissar opinberar fjárfestingar í framkvæmdum og lausnum sem draga úr losun, s.s. borgarlínu og nýjum tæknilausnum á sviði loftslagsmála. Skattalegar ívilnanir þurfa að gagnast sem flestum, t.d. við kaup á bifreiðum sem ekki ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Einföld og snjöll hugmynd er að rafvæða bílaleiguflotann. Nýta þarf kolefnisföngun og -förgun með markvissum hætti í stóriðjunni. Opinber fjárfesting í innviðum vegna orkuskiptanna mun skila sér margfalt til framtíðar.

Hér eru nefnd þrjú lykilmál sem brenna á okkur í Samfylkingunni. Við göngum til kosninga með skýra sýn á stærstu verkefni næsta kjörtímabils og þurfum á stuðningi þínum að halda í 25. september nk. til að hrinda þeim í framkvæmd.

Þórunn Sveinbjarnardóttir

skipar 1. sæti framboðslista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2