fbpx
Föstudagur, janúar 17, 2025
HeimUmræðanUm þakklæti

Um þakklæti

Þakklæti felur í sér að koma auga það smáa í kringum okkur sem er þakkarvert, að líta ekki á það sem er gott í kringum okkur sem sjálfsagðan hlut.

Þakklæti er sú dyggð sem hefur einna sterkust áhrif á hamingju einstaklinga. Þakklæti hjálpar fólki að upplifa jákvæðar tilfinningar, Við getum fundið þakklæti þegar við skoðum eitthvað í fortíðinni, í núinu og það sem við eigum von á í framtíðinni. Það er alltaf hægt að auka þakklætisupplifun. Þakklæti er ekki háð því hversu mikið þakklæti maður upplifði í gær. Það skiptir einfald­lega gríðarlegu miklu máli fyrir heilsu okkar og andlega líðan. Þakklæti leiðir nefnilega af sér betri svefn, minni streitu, meiri gleði og vellíðan, betri samskipti, aukinnar ánægju með lífið og aukinnar bjartsýni.

Þakklæti er ekki endilega meðfætt og fólk virðist eiga misauðvelt með að sýna þakklæti. Sumir segjast vera þakklátir en finnst erfitt að sýna það. Samkvæmt rann­sóknum sem gerðar hafa verið á þakklæti, er þakklæti viðhorf sem ein­stakl­­ingar hafa valið sér og þróað með sér. Því sé best að nýta þetta viðhorf í daglegum athöfnum, taka eftir hinu smáa sem hægt er að vera þakklátur fyrir og gera að vana.

Það liggur því í augum uppi að það þarf að kenna börnum að vera þakklát. Þakka fyrir matinn, þakka fyrir að geta leikið úti, þakka fyrir náttúruna, þakka fyrir gjafir, þakka fyrir að eiga foreldra, þakka fyrir að eiga systkini, þakka fyrir að eiga dót, þakka fyrir að vera í skóla, þakka fyrir ömmu og afa, þakka fyrir vini og fl. og fl.

Rannsóknir hafa einnig sýnt að þeir sem ástunda þakklæti; telji að það sé lykilinn að hamingjunni og að þakklæti sé það sem gefur lífinu gildi. Þakklæti hefur jákvæð áhrif á líðan og heilsu þeirra og eru þeir meðal annars líklegri til að verða orkumeiri, jákvæðari, bjartsýnni, hjálp­samari, umburðarlyndari og heilsu­hraustari svo eitthvað sé nefnt. Hamingju­samt fólk lifir þar að auki 7-10 árum leng­ur en óhamingjusamt fólk og jákvæðir einstaklingar eru í mun minni hættu á að fá hjartasjúkdóma en þeir sem eru nei­kvæðir.

Hvað er svo hægt að gera til þess að auka þakk­lætis­hugsun yfir daginn?

Eitt sem hefur gefið góða raun er að halda „þakklætisdagbók“. Þakklætis­dag­bók er hugsuð sem æfing í að koma betra jafnvægi á það sem við veitum eftirtekt dags daglega. Við erum líklegri til að taka eftir því sem er erfitt eða gengur illa. Með því að leita markvisst að einum jákvæðum punkti eða einhverju til þess að vera þakk­lát fyrir getum við reynt að jafna vogar­skálarnar.

Fólk skrifar niður á hverju kvöldi, áður en það fer að sofa fimm hluti sem það er þakklátt fyrir. Með því að skrifa þakklæti niður að kvöldi dags þarf fólk að hafa í huga allan daginn þá hluti sem það er þakklátt fyrir til þess að muna hvað á að skrifa niður og þar með dvelur hugurinn við það jákvæða. Einnig er talið mikilvægt að fólk ígrundi hvaða tilfinningu þakk­lætið vekur upp hjá því og hvaða merkingu þakklætið hefur fyrir það. Hvers vegna er ég þakklát/þakklátur? Hver er tilfinningin sem því fylgir? Það er mikilvægt að leyfa líkamanum að upplifa þessa tilfinn­ingu. Á þann hátt verður þakklætið ekki bara hugsun ein, heldur vekur upp dýpri tilfinningar og betri líðan. Við svona æf­ingu er aðalatriðið að geta fundið eitthvað til þess að þakka fyrir á hverjum degi, jafnvel þegar dagurinn hefur verið erfiður. Sumar færslur verða sennilega um eitthvað stórt og merkilegt en aðrar verða um lítil atriði sem margir myndu telja ómerkileg, t.d. að hádegismaturinn í skólanum hafi verið betri en í gær eða að það sé gott að vera búin með erfitt próf. Suma daga gæti þakklætið bara snúist um að erfiður dagur sé að verða búinn.

Þökkum, þegar sólin blikar

Þökkum, þegar sólin blikar
þökkum fyrir regn og vor
Þökkum, er lax í straumi stikar,
stökkin kalla á þor.

Þökkum, þegar eldur brennur,
þökkum fyrir söngsins mál.
Þökkum, er áfram ævin rennur,
alveg laus við tál.

Þökkum, þegar finnst oss gaman,
þökkum fyrir söng og þrá.
Þökkum, er allir syngja saman,
sækjum brattann á.

Þökkum, þegar tjöldin rísa,
þökkum hverja fjallasýn.
Þökkum er landið elds og ísa
augunum við skín.

Þökkum, þegar kvölda tekur,
þökkum fyrir nýjan dag.
Þökkum allt sem vorið vekur;
vorsins fagra lag.

Þökkum, þennan æskuskara,
þökkum fyrir glaða lund. :,:
Þökkum þeim sem koma og fara,
þökkum helgistund.

(Hörður Zóphaníasson)

Elsa Sigríður Þorvaldsdóttir
iðjuþjálfi/ráðgjafi hjá Starfsendurhæfingu Hafnarfjarðar.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2