Í upphafi skólaárs setjum við okkur markmið og hefjum ný verkefni. Stærsta verkefni barna okkar er byrjun skólagöngunnar hvort sem er í leik- eða grunnskóla, verkefni sem börnin bíða með eftirvæntingu og tilhlökkun en getur verið afar krefjandi og fyrir suma erfitt. Það er gömul saga og ný að það þurfi heilt bæjarfélag til að ala upp barn og það er svo sannarlega satt þegar kemur að því að tryggja farsæla skólagöngu barnanna. Þessa dagana eru yngstu leikskólabörnin alls 426 að hefja aðlögun sína hvert af öðru, en öll börn fædd í maí 2021 sem skráð voru með lögheimili í Hafnarfirði í maí 2022 hafa fengið boð um leikskólapláss. Á undanförnum árum hefur innritunaraldur barna lækkað jafnt og þétt og er nú miðað við að börn sem náð hafa 15 mánaða aldri að hausti fái boð um leikskólavist sem við í meirihlutanum teljum raunhæfan aldur. Í vetur verða opnuð um 100 pláss í færanlegum kennslustofum og undirbúningur er hafinn við nýjan leikskóla í Hamranesi í takt við fjölgun íbúa þar.
Vel hefur gengið að manna stöður á frístundarheimilum og eru öll börn sem sótt var um fyrir á tilsettum tíma komin með öruggt pláss. Mikil eftirspurn hefur verið eftir plássum á frístundaheimilum og er það trú okkar að ráðið verði í þær stöður fljótt og vel svo enn fleiri börn komist að.
Endurskoðun á skipulagi leikskólans
Eitt af stóru verkefnum okkar er að leiða áfram vinnu við að búa til samfellu eftir að fæðingarorlofi líkur með sterku dagforeldrakerfi, öflugum leikskólum og öðrum leiðum sem foreldrar hafa kallað eftir. Vinna við endurskoðun skipulags leikskólanna hefst nú á haustmánuðum og samtal við dagforeldra er þegar hafið. Með samstöðu og samtali, þeirra sem þekkinguna hafa, þvert á flokka og fólk, getum við leitt áfram vinnu sem styrkir skólasamfélagið okkar og býr þannig starfsfólki og börnum enn betri starfsaðstæður.
Með umburðarlyndi fyrir fjölbreytileikanum og skilning á mismunandi skoðunum vona ég að við Hafnfirðingar höldum inn í komandi vetur með það að markmiði að hlúa vel að hvort öðru.
Kristín Thoroddsen,
formaður fræðsluráðs Hafnarfjarðar.