Fræðsluráð hafnaði á dögunum enn einni tillögu Samfylkingarinnar um uppbyggingu leikskóla í skólahverfi Öldutúnsskóla. Þar með er útséð um að nýr leikskóli verði byggður í hverfinu á þessu kjörtímabili.
Lokun þrátt fyrir þörf
Frá því að Kató var lokað vorið 2016 hafa fulltrúar Samfylkingarinnar, ásamt fulltrúa Vinstri grænna á seinasta kjörtímabili, bent á skort á leikskólaplássum í skólahverfi Öldutúnsskóla. Í minnisblaði frá fræðsluþjónustu kemur fram að flest pláss vanti í þessu hverfi ásamt nýjum hverfum í Skarðshlíð og á Völlum. Á seinasta kjörtímabili opnaði nýr leikskóli á Völlum sem var kærkomin viðbót og stefnt er að opnun fjögurra deilda leikskóla í Skarðshlíð innan tveggja ára. Verið er að bregðast við þörfinni á Völlum og í Skarðshlíð en á sama tíma sitja íbúar í Öldutúnsskólahverfi eftir án þess að við þeirra þörf sé brugðist.
Öllum tillögum Samfylkingarinnar hafnað
Fulltrúar Samfylkingarinnar hafa ítrekað lagt fram tillögur um að ráðist verði í uppbyggingu leikskóla í hverfinu án árangurs. Í gögnum kemur fram að hverfið hafi náð jafnvægi og því ekki líklegt að börnum á leikskólaaldri muni fækka þar á næstu árum. Í ljósi áætlana um lækkun á inntökualdri er mun líklegra að þeim fjölgi. Það hefði því frekar verið ástæða til að byggja upp þessa mikilvægu grunnþjónustu innan hverfisins. Og þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir leikskóla á deiliskipulagi við Öldugötu er enginn vilji til að ráðast í uppbyggingu þar.
Leikskólarnir mikilvæg nærþjónusta
Fulltrúar meirihlutans hafa haldið þeim málflutningi á lofti að Hafnarfjörður sé eitt leikskólahverfi og á þeim forsendum sé foreldrum ungra barna ekkert of gott að keyra með börn sín í leikskóla í önnur hverfi. Þessu erum við í Samfylkingunni ekki sammála. Við teljum leikskóla vera mikilvæga þjónustu sem tryggja eigi íbúum innan hverfa. Íbúar í skólahverfi Öldutúnsskóla bera skarðan hlut frá borði þegar kemur að leikskólaþjónustu og ekki er útlit fyrir að sú staða bætist mikið á næstu árum.
Adda María Jóhannsdóttir
bæjarfulltrúi og oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.
Greinin birtist í Fjarðarfréttum, bæjarblaði Hafnfirðinga 24. janúar 2019