fbpx
Föstudagur, janúar 17, 2025
HeimUmræðanValið verður íbúanna um Coda Terminal

Valið verður íbúanna um Coda Terminal

Ólafur Elínarson, samskiptastjóri Carbfix skrifar

Nýlega varð þverpólitísk samstaða í bæjarstjórn Hafnarfjarðar um að efna til íbúakosningar um Coda Terminal verkefnið að tveim skilyrðum uppfylltum: Að samningar náist um gjöld vegna innviða fyrir verkefnið og að niðurstaða Skipulagsstofnunar um umhverfismat verði jákvæð.

Skipulagsstofnun mun byggja álit sitt á niðurstöðu sérfræðinga ýmissa stofnana, svo sem Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits. Auk þess fær Skipulagsstofnun álit frá fleiri sérfræðingum til að byggja undir faglegt álit sitt.

Því verður að halda til haga, að ekki er verið að áætla að flytja inn sorp eins og getið er um í „Vallaannál VIII“ sem birtur var á vef Fjarðarfrétta þann 12. desember síðastliðinn.

Efnið sem yrði flutt inn er hreinsaður útblástur, nær alveg hreint koldíoxíð líkt því sem þegar er verið að flytja inn og er geymt á iðnaðarsvæðinu við Vellina og svo selt áfram til ýmissa nota hér landi, svo sem að dæla því inn í gróðurhús til að auka vöxt grænmetis, í gosdrykki, í slökkvitæki og svo mætti lengi telja.

En hvað með snefilefnin í gasinu? Eru þau sorp?

Snefilefnin eru þau sömu og er þegar leyft að losa í andrúmsloftið. Nærtækast er að hugsa sér útblásturinn frá álverinu í Straumsvík, fyrir honum eru leyfi og hann má losa því magnið er innan löglegra marka.

Það sem flutt verður inn er hreinsaður slíkur straumur frá iðnaði. Hreinni en það sem þegar er leyft að losa út í andrúmsloftið. Leitum í álit sérfræðinga Heilbrigðiseftirlitsins í Hafnarfirði, Kópavogi, Garðabæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi sem gáfu eftirfarandi umsögn við umhverfismat Coda Terminal

„Ekki er talin mikil hætta á að snefilefni í CO2 hafi áhrif á strandsjávarhlotið þar sem hámarksstyrkur snefilefna í CO2 straumnum er lágur og áhrif þeirra á grunnvatn verða því í flestum tilfellum hverfandi. Engu síður er mikilvægt að framkvæma ítarlegar rannsóknir og vöktun með niðurdælingarverkefninu og á það bæði við um grunnvatnshlotið og vistkerfi strandsjávarhlotsins.”

Carbfix tekur heilshugar undir mikilvægi þess að framkvæma rannsóknir og vöktun og hefur sett saman mjög yfirgripsmikla vöktunaráætlun til þess. Enn fremur verður verkefninu áfangaskipt og það byggt upp í skrefum á svæðinu sem starfsemin verður á.
Ef af verður fær Carbfix starfsleyfi frá Umhverfisstofnun sem skylda mun fyrirtækið til að starfa eftir settum lögum, svo sem 33. gr. laga 50 nr. 7/1998 um mengunarvarnir og hollustuhætti, sem fjallar um geymslu CO2 í jörðu, lögum um stjórn vatnamála nr. 36/2011, reglugerð nr. 535/2011 um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun og reglugerðum nr. 796/1999 og 797/1999 um varnir gegn mengun vatns og grunnvatns.

Af þessu má sjá að stíft regluverk er til staðar til að fyrirbyggja neikvæðu áhrifin sem fyrrnefnd greinaskrif snúast um.

Carbfix hefur þegar dælt niður koldíoxíði og brennisteinsvetni í yfir áratug á Hellisheiði án vandkvæða og aukið loftgæði á svæðinu.

Í Coda Terminal verkefninu hefur Carbfix enn fremur óskað eftir nákvæmari leiðbeiningum frá Umhverfisstofnun um hvaða skilyrði eru fyrir niðurdælingu á hreinsuðum CO2-straumi, þar með talið um leyfilegan hámarksstyrk snefilefna.

Þá er rétt að geta þess að engin niðurdæling á CO2 á sér stað í Straumsvík og verður ekki nema með veittu leyfi áðurnefndra aðila.

Það er því rétt að leiðrétta að verið sé að flytja inn sorp. Þá má geta þess að árlega eru fluttar inn til Íslands tæplega 2 milljónir tonna af olíu, bensíni og gasi sem er geymt í tönkum ofanjarðar og neðanjarðar, og það með stórfelldum kostnaði fyrir þjóðarbúið.
Innflutningur á CO2 til að breyta í stein neðanjarðar með tækni Carbfix myndi aftur á móti skapa umtalsverðar gjaldeyristekjur fyrir íslenskt samfélag. Setja Ísland í fremstu röð á heimsvísu í grænni nýsköpun. Og gera það nær hljóðlaust og á öruggan hátt djúpt neðanjarðar.

Carbfix hefur tekið eftir og hlustað á áhyggjur íbúa um að verkefnið sé umfangsmikið með tilliti til innflutnings, staðsetningu, starfsemin sé ný og það sé óvissa tengd því. Það hefur einnig komið fram í umsögnum, til dæmis frá Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun, og það eru atriði sem þarf að kanna betur og bregðast við tengd verndun svæða og flokkun vatnshlota. Það eru úrlausnarefni sem eru í réttum farvegi í átt að niðurstöðu.
Þá er það í höndum fulltrúa Hafnarfjarðarbæjar hvort Carbfix verði langtímaviðskiptavinur nýrrar hafnar í Straumsvík, sem bærinn hyggur á samkvæmt skipulagstillögum, til að færa stórskipaumferð úr miðbænum. Það er Coda Terminal verkefninu ekki nauðsynlegt að hafa stóra höfn í Straumsvík.

Öll verkefni hafa kosti og galla, Coda Terminal þar á meðal. En að kalla efnið sem er flutt inn sorp eða eitur, eða gera því skóna að aðferðin sé ekki sönnuð eða vottuð, er síst hjálplegt fyrir umræðu um tækifæri sem Hafnfirðingar geta valið eða hafnað.

Ólafur Elínarson,
samskiptastjóri Carbfix

 

Vallaannáll VIII

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2