Þann 9. júlí 2015 settust Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, og Guðmundur I. Ásmundsson, forstjóri Landsnets, niður við borð framan við Hamranestengivirkið ofan Valla í bænum. Tilefnið var m.a. undirritun samkomulags um að háspennuloftlínur milli tengivirkisins og álversins í Straumsvík yrðu lagðar í jörð innan tveggja ára. Íbúar ofarlega í Vallahverfinu höfðu vakið athygli á stöðugum og óþægilegum hávaða frá loftlínunum þegar eitthvað bar á vindi, auk þess sem möstrin takmarka möguleika bæjarfélagsins á nýtingu dýrmætra lóða innan bæjarmarkanna.
Nú, tæplega áratug síðar, hefur nákvæmlega ekkert gerst og engin viðleitni virðist vera í þá átt að fullnægja samkomulagið.
Á vefsíðu Hafnarfjarðarbæjar 8. júlí 2015 mátti lesa eftirfarandi: „Á morgun, fimmtudaginn 9. júlí 2015 munu Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri í Hafnarfirði og Guðmundur I. Ásmundsson forstjóri Landsnets skrifa undir samkomulag um uppbyggingu hluta raforkuflutningskerfis Landsnets hf. innan Hafnarfjarðar sem m.a. felur í sér niðurrif á Hamraneslínum.
Einnig munu Landsnet, Hafnarfjarðarbær og samtök íbúa á Völlum skrifa undir sameiginlega yfirlýsingu. Undirskriftin fer fram utandyra við tengivirkið í Hamranesi og hefst kl. 14.00.
Bæjarráð samþykkti á fundi sínum í dag fyrirliggjandi samkomulag við Landsnet um flutningskerfi raforku við Vallahverfi og bætta hljóðvist og útlit spennustöðvar við Hamranes.
Bæjarráð fagnar þessum áfanga og því samráði sem náðst hefur með virkri þátttöku hlutaðeigandi í samningaviðræðum, auk Hafnarfjarðarbæjar og Landsnets, aðkomu fulltrúa íbúasamtaka svæðisins og álversins í Straumsvík.
Jafnframt leggur bæjarráð áherslu á að áfram verði unnið að því að línur úr spennuvirkinu við Hamranes verði settar í jörðu.“
Þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar og fögur fyrirheit fulltrúa bæjarins og nefndra íbúasamtaka um að háspennulínur á svæðinu færu í jörðu hefur enn ekkert gerst í framangreindum efnum – tæpum áratug síðar.
Á vefsíðu Landsnets 9. júlí 2015 mátti einnig lesa eftirfarandi: „Haraldur fagnar því að samkomulag hafi náðst með samvinnu og samstarfi við íbúa á svæðinu. „Samkomulagið sem við undirrituðum í dag tryggir að nú þegar verður hafist handa við að breyta ásýnd og bæta hljóðvist við tengivirkið í Hamranesi og að línurnar verði farnar að hluta til í jörð næst Hamranesi ekki seinna en árið 2018,“ segir Haraldur.
Samkomulagið miðar að því að hægt verði að rífa Hamraneslínur 1 og 2 og að færa Ísallínur 1 og 2 sem liggja frá tengivirkinu í Hamranesi að álverinu í Straumsvík fjær byggðinni. Gert ráð fyrir að ný Suðurnesjalína 2 – 220 kV háspennulína sem lögð verður út á Reykjanes – tengist Hamranesi með 1,5 km löngum 220 kV jarðstreng frá Hraunhellu. Hafnarfjarðarbær mun á næstunni gefa út framkvæmdaleyfi fyrir þeim hluta Suðurnesjalínu 2 sem liggur um land bæjarins.
Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets fagnar því að samkomulag hafi náðst um breytingar á flutningskerfi raforku í nágrenni íbúabyggðar í Hafnarfirði. „Samkomulagið er gert í samráði við samtök íbúa á Völlunum í Hafnarfirði og er mikilvægt að þannig hefur náðst niðurstaða sem víðtæk sátt er um,“ segir Guðmundur.
Undirbúningur Sandskeiðslínu hafinn
Bygging Sandskeiðslínu 1 er forsenda þess að hægt verði að rífa Hamraneslínur og gera aðrar breytingar á flutningskerfinu í Hafnarfirði sem felast í samkomulaginu. Til þess að hægt verði að ráðast í þetta verkefni sem fyrst munu samningsaðilar leita eftir samvinnu við önnur sveitarfélög sem málið varðar.
Undirbúningur að byggingu 420 kV Sandskeiðslínu 1 er hafinn. Línan mun liggja í lofti frá nýju tengivirki við Sandskeið að Hrauntungum í Hafnarfirði og þaðan áfram samsíða Suðurnesjalínu 2 að Hraunhellu. Tvær mögulegar útfærslur á legu Sandskeiðslínu 1 frá Hraunhellu að Hamranesi eru til skoðunar. Annars vegar að hún liggi í lofti frá Hraunhellu í samræmi við aðalskipulag Hafnarfjarðar en tengist Hamranesi með jarðstreng frá loftlínuhluta vestan Krýsuvíkurvegar. Hins vegar er útfærsla sem byggir á tengingu Sandskeiðslínu 1 frá Hrauntungum beint til álversins í Straumsvík í stað Hamraness.”
Landsnet hefur nefnt það sem afsökun fyrir svikum á samkomulaginu að fyrirhuguð Sandskeiðslína hafi enn ekki komist í gagnið. Staðreyndin er hins vegar sú að sú lína kemur ætluðum jarðstreng frá Hamranesi að Straumsvík nákvæmlega ekkert við.
„Um hvað snýst línumálið á Völlum?“
Fjallað eru um línumálin í víðara samhengi í Fjarðarpóstinum 26. mars 2015 undir fyrirsögninni „Um hvað snýst línumálið á Völlum?“
„Hafnarfjarðarbær og Landsnet gerðu grunnsamkomulag um flutningskerfi raforku í ágúst 2009. Þar kemur fram að Landsnet þurfi að leggja háspennulínur um lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar til að bæta flutningskerfi raforku. Markmiðið var að við uppbyggingu flutningskerfisins yrði komið til móts við sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar að því marki sem unnt væri með vísan til skyldna Landsnets. Þannig mætti lágmarka kostnaðarþátttöku Hafnarfjarðarbæjar við breytingar á kerfinu en fylgja átti í hvívetna markmiðum í aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2015[1]– 2025.
Helstu breytingar á kerfinu voru að byggðar yrðu tvær nýjar háspennulínur frá Sandskeiði að Njarðvíkurheiði og nýtt tengivirki reist í Hrauntungum. Ættu Hamraneslínur 1 og 2 að víkja sem og núverandi Suðurnesjalína. Tengivirkið í Hamranesi yrði þá spennistöð.
Ísal-línur 1 og 2 færðust því frá Hamranesi að Hrauntungum og þaðan í beina stefnu að álverinu. Háspennulína sem liggi að Hamranesi yrði þá færð í Hrauntungur og Hamranesið yrði tengt tengivirkinu í Hrauntungum með 2 jarðstrengjum. Gerð var ráð fyrir að verkið yrði unnið í 3 áföngum og yrði að fullu komið til framkvæmda árið 2017.
Miðað við þessa áætlun bæri Landsnet allan kostnað af verkinu. Í samkomulaginu segir að Hafnarfjarðarbær leggi áherslu á að framkvæmdum verði lokið eigi síðar en 2015 en þá greiddi Hafnarfjarðarbær ákveðinn flýtikostnað sem var áætlaður 300 milljón kr. við þriðja áfanga.
Landsnet setti fyrirvara í samkomulagið um að breyttust forsendur um aukinn flutning raforku til álversins og fl. yrðu teknar upp viðræður um endurmat á forsendum þess að leggja raflínur í lofti í álverið.
Viðauki
Í október 2012 gerðu aðilar viðauka við samkomulagið. Þar kemur fram að Landsnet telji ekki hægt að tímasetja hvenær framkvæmdum ljúki og í hvaða röð. Þar leggur Hafnarfjarðarbær ríka áherslu á niðurrif Hamraneslínu 1 og 2 þar sem þær hafi veruleg áhrif á þróun íbúðarbyggðar enda fari það að meginstefnumörkun Landsnets. Í samkomulaginu upplýsir Landsnet þá ákvörðun sína að ráðast í niðurrif Hamraneslínu og að undirbúningur hefjist eigi síðar en 2016 þannig að fjarlægja megi línurnar árið 2020.
Mat á samkomulagi
Í mati sem Landslög gerðu fyrir Hafnarfjarðarbæ segir að tímaáætlanir samningsins hafi ekki staðist af hálfu Landsnets. Þar segir einnig að Landsnet hafi ekki upplýst hvaða breyttu aðstæður liggi til grundvallar seinkun á framkvæmdum. Skýrsluhöfundur telur í ljósi þess að Landsnet hafi nú óskað eftir leyfi til að ráðast í hluta þeirra framkvæmda sem fyrsti áfangi tók til, eðlilegt og í samræmi við 2. mgr. 6. gr. samningsins að aðilar setjist niður og ræði framhald framkvæmda og nauðsynlegar breytingar á honum m.a. til að lágmarka tjón Hafnarfjarðarbæjar. Landsnet geti ekki einhliða tínt inn þá hluta framkvæmdanna sem henta fyrirtækinu án þess að ræða um framhald framkvæmdanna og þau atriðið sem skipta Hafnarfjarðarbæ mestu. Viðaukinn breyti þar engu um.
Í samkomulaginu er getið að almenna flutningskerfið megi standa í 20 ár frá því hver lína er tekin í notkun og því er mikilvægt að skýrt sé við hvaða línur sé átt.
Í 2. málslið 4. málsgreinar 6 gr. samkomulagsins segir: „Ef samfelld byggð á svæðinu þróast þannig að háspennulínur hamli verulega frekari þróun byggðar á einhverjum hluta línuleiðarinnar eru aðilar sammála um að sá hluti raforkukerfisins verði færður fjær byggð, ef til þess fást tilskilin leyfi.“ Þá greiði Landsnet fyrir flutninginn. Skýrsluhöfundur telur að framangreindar ástæður eigi við um þá áfanga sem tilbúnir eru til úthlutunar í Skarðshlíð en verður ekki úthlutað vegna línunnar. Þetta eigi jafnframt við um þann hluta Hnoðraholtslínu sem takmarki uppbyggingu í Áslandi 4 og 5/Vatnshlíð. Í samtali við forstjóra Landsnets upplýsti hann að ekki væri á áætlun að flytja Hnoðraholtslínu.”
„Ein lína í stað tveggja“:
Í Vísi 23. maí 2017 skrifar Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets undir fyrirsögninni – „Ein lína í stað tveggja“:
„Undanfarnar vikur og mánuði hefur mikið verið rætt um einstaka verkefni Landsnets – umræða er af hinu góða og við hjá Landsneti höfum kynnt nýtt verklag og aukið samráð. Fyrir okkur skiptir máli að sýna frumkvæði í umræðunni og að hún sé opin, heiðarleg og byggð á staðreyndum – þannig viljum við vinna, þannig vinnum við, enda eru samráð og samvinna vænlegust til árangurs.
Það er mikilvægt að umræðan sé upplýst og ekki byggð á gömlum upplýsingum. Við erum í síbreytilegu umhverfi og við hjá Landsneti byggjum áætlanir okkar um uppbyggingu raforkukerfisins á nýjustu upplýsingum hverju sinni.“
Í samvinnu við íbúasamtök á svæðinu
Sumarið 2015 gerðu Landsnet og Hafnarfjarðarbær með sér samkomulag sem miðaði m.a. að því að rífa Hamraneslínur 1 og 2 og að færa Ísallínur 1 og 2, sem liggja frá tengivirkinu í Hamranesi að álverinu í Straumsvík, fjær byggðinni en samkomulagið kveður á um að verkefnunum eigi að vera lokið 2018. Það samkomulag var gert í góðri samvinnu við íbúasamtökin í Vallahverfinu.
Lyklafell – Hamranes
Nú hefur verið hafist handa við þann áfanga verkefnisins sem felst í byggingu Lyklafellslínu 1, sem áður hét Sandskeiðslína 1, um 25 km langrar 220 kV raflínu frá nýju 220 kV tengivirki við Lyklafell að Straumsvík, samhliða núverandi Búrfellslínu 3.
Áætlað er að Lyklafellslínan liggi í lofti frá nýju 220 kV tengivirki við Lyklafell að Hrauntungum í Hafnarfirði og þaðan áfram að Straumsvík. Bygging Lyklafellslínu 1 er forsenda þess að hægt verði að rífa Hamraneslínur 1 og 2.
Línan er á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar 2015-2024, samþykkt af Orkustofnun og í fullu samræmi við svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulag viðkomandi sveitarfélaga…”
Segja verður bara eins og þar er; framangreind skrif upplýsingafulltrúa Landsnets eru lítið annað en málskrúð og afsakanir á ósiðsömum vanefndum fyrirtækisins.
„Hamraneslínur“
Ingi Tómasson, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, skrifaði á heimasíðuna sína þann 15. nóv. 2018 um „Hamraneslínur“:
„Árið 2006 var farið að ræða um niðurrif línanna. Við stækkun álversins í Straumsvík 2007 ætlaði álverið að sjá um að setja línur í jörð næst byggð, niðurstaða íbúakosningar um stækkun álversins sló þá hugmynd út af borðinu. Árið 2009 var undirritað samkomulag við Landsnet um lagningu á nýrri línu, Lyklafellslínu (Sandskeiðslínu 1) og niðurrif Hamraneslínu. Ferlið átti að hefjast árið 2011 og enda á þessu ári. Ekkert varð af þessum áformum. Í október 2012 var undirritaður (mjög óljós) viðauki við samkomulagið frá 2009 um að Hamraneslínur yrðu fjarlægðar í síðasta lagi 2020. Í upphafi þessa kjörtímabils var farið í viðræður við Landsnet um niðurrif línanna. Hafnarfjarðarbær átti mjög gott samstarf við íbúasamtök Valla í þessari vinnu sem skilaði niðurstöðu með samkomulagi og var undirritað í júlí 2015. Í samkomulaginu fólst m.a. að ný lína, Lyklafellslína yrði lögð, Hamraneslínur fjarlægðar og Ísallína færð fjær byggð. Ferlinu átti að ljúka á þessu ári. Fyrirvari er í samkomulaginu sem er „force majure“ leyfisveitingar, niðurstaða í kæruferlum eða dómsmálum. Bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar samþykkti svo framkvæmdaleyfi þann 21. júní 2017, sama hafa Garðabær, Kópavogur og Mosfellsbær gert.“
Skipulagið og næstu skref
Hafnfirðingum og þá sér í lagi íbúum á Völlum hefur verið lofað í 9-10 ár að Hamraneslínur yrðu fjarlægðar. Landsnet þarf að svara með hvaða hætti þetta verður gert. Viðræður eru í gangi við Skipulagsstofnum um næstu skref og fljótlega ætti að koma í ljós tímaramminn um framhaldið. Í samkomulaginu frá 2015 er ákvæði um færslu línanna frá byggð kæmi þessi staða upp, sá möguleiki hefur nú þegar verið ræddur við Landsnet. Hafnarfjarðarbær mun halda áfram að þrýsta á Landsnet um efndir á samkomulagi um niðurrif Hamraneslína og færslu Ísallína.“
Einhverju sinni hefði fólk, sem vildi láta taka sig alvarlega, talið sóma verið fólginn í að efna tilskylda samninga. Forstjóri Landsnets virðist hins vegar á allt öðru máli og fulltrúar Hafnarfjarðarbæjar virðast, því miður, áhugalausir um efnið. Hávaðinn frá loftlínunum er ennþá hinn sami, tæpum áratug síðar.