Það var grátbroslegt að lesa tvær greinar í Fjarðarfréttum í síðustu viku, miðvikudaginn 18. apríl. Greinarnar annars vegar skrifaðar af fulltrúum Samfylkingarinnar hér í Hafnarfirði og hins vegar af fulltrúa VG. Í báðum greinunum skín í gegn gríðarlegur pirringur yfir góðri og ört batnandi fjárhagsstöðu bæjarsjóðs. Undir sterkri stjórn Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði hefur fjárhag bæjarins verið algerlega snúið við. Bæjarsjóður sem áður var í fjárhagslegri gjörgæslu opinberra aðila hefur batnað og batnað þetta kjörtímabil undir stjórn Sjálfstæðisflokksins. Í stað þess að safna skuldum hefur bæjarsjóður greitt niður skuldir, sparað vaxtagreiðslur. Peningar sem áður fóru til greiðslu vaxta af skuldum eru nú notaðir til uppbyggingar í bænum.
Þetta ergir fulltrúa Samfylkingarinnar og VG heilmikið enda voru þessir sömu flokkar nálægt því að gera bæinn gjaldþrota þegar þeir „stjórnuðu“ bæjarfélaginu, eða réttara sagt stjórnuðu ekki.
Sveitarstjórnarkosningarnar sem haldnar verða 26. maí næstkomandi verða einar þær mikilvægustu fyrir Hafnfirðinga í langan tíma. Mikilvægið felst ekki síst í því hvort takist að varðveita þann stöðugleika sem kominn er á rekstur bæjarsjóðs eftir áralanga óstjórn. Einn besti mælikvarðinn á þennan árangur er sá að skuldahlutfall og skuldaviðmið bæjarsjóðs hefur lækkað ört og þar af leiðandi vaxtagreiðslur og aðrar greiðslur sem fylgja mikilli skuldsetningu. Sparaðir peningar í þessum liðum nýtast uppbyggingu innviða í bæjarfélaginu.
Bæjarbúar þurfa að hafa í huga það sem sagt var einu sinni, en á alveg eins við í dag, „varist vinstri slysin“.
Magnús Ægir Magnússon rekstrarhagfræðingur
og skipar sæti á lista Sjálfstæðisflokksins.