Næring er lykilþáttur í vellíðan og heilsu barna. Vel nærðum nemendum og starfsmönnum líður betur. Það eiga allir auðveldara með að einbeita sér þegar þeir hafa nærst vel. Þegar það er í boði áhugaverður, góður og vel framsettur matur sem öllum langar í, þá hefur það áhrif á lærdómsgetu og hegðun nemenda. Við þekkjum það öll hvernig okkur fer að líða þegar við erum svöng eða höfum ekki fengið fylli okkar af næringu.
Við hjá Viðreisn teljum að það sé hægt að bæta vellíðan nemenda í grunn- og leikskólum Hafnarfjarðar með fjölbreyttari og góðu vali skólamáltíða. Við höfum ítrekað óskað eftir því við vinnu fjárhagsáætlunar Hafnarfjarðar að sett verði fjármagn til að finna fjölbreyttari leiðir við val á skólamáltíðum.
Nú hefur það loksins verið samþykkt í fræðsluráði Hafnarfjarðar. Þessi barátta okkar, um að farið verði í metnaðarfulla vinnu með það að markmiði að hrinda af stað jákvæðri þróun í skólamáltíðum bæjarins þar sem ferskleiki og fjölbreytni verður okkar leiðarljós. Við teljum að skólum eigi að gefast kostur á að nýta sér fjölbreyttar leiðir þegar kemur að skólamáltíðum og fleiri þjónustuaðilar eiga að geta tekið þátt í að veita þjónustuna.
Með fjölbreyttum leiðum eigum við m.a. við:
- að endurvekja framleiðslueldhús /mötuneyti í þeim skólum sem hafa rými til þess og áhuga
- að skólar geti farið í samstarf með framleiðslu á mat.
- að kannaður sé áhugi á uppsetningu framleiðslueldhúss innan bæjamarka sem geti þjónustað þá skóla sem eftir því sækjast. Slíkt gæti mögulega þjónustað fleiri stofnanir bæjarins.
- að fleiri og fjölbreyttari fyrirtæki geti þjónustað Hafnarfjarðarbæ með skólamáltíðir.
Teljum við mikilvægt að leitað verði til nemenda, kennara, foreldra, starfsmenn skólanna og skólastjórnenda til umsagnar.
Hvað sem verður fyrir valinu þá teljum við að valið eigi að vera í höndum þeirra sem nýta sér þjónustuna. Megin þráður og markmið þessa verkefnis sé að auka fjölbreytni í fæðuvali og tryggja næringarríkt og hæfilegt magn fyrir alla.
Karólína Helga Símonardóttir,
fulltrúi Viðreisnar í fræðsluráði Hafnarfjarðar.